Mannlíf
Líkönin af Harðbak og Sléttbak öllum sýnileg
12.10.2025 kl. 16:30

Harðbakur EA 3 – Glæsilegt líkan Elvars Þórs Antonssonar í glugga verslunar Pennans Eymundssonar við Hafnarstræti. Myndir: Þorgeir Baldursson
Líkönum af tveimur togurum Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið komið fyrir í verslun Pennans Eymundssonar í miðbæ Akureyrar þar sem þau verða til sýnis á næstunni. Um er að ræða síðutogarann Harðbak EA 3 og skuttogarann Sléttbak EA 304.
Sigfús Ólafur Helgason, talsmaður fyrrverandi sjómanna ÚA sem létu smíða líkönin, segist afskaplega glaður og þakklátur forsvarsmönnum verslunarinnar fyrir það „hve vel þeir tóku í að vista skipin, og um leið sýna bæjarbúum og gestum bæjarins þessa dýrgripi sem segja svo merka sögu útgerðar á Akureyri“ en eiga sér hvergi samastað.

- Glæsilegt líkan af Harðbak EA 3 var afhjúpað í ágúst á þessu ár – sjá hér: Harðbakur EA 3 aftur við Torfunefið
- Líkön af Sléttbak EA 304 og Svalbak EA 302, „Stellunum“ eins og þær voru kallaðar, voru afhjúpaðar í nóvember 2023 – sjá hér: Stellum fagnað með 50 ára millibili – MYNDIR
Það var völundurinn Elvar Þór Antonsson sem smíðaði bæði líkönin fyrir hóp fyrrverandi sjómanna á togurum ÚA, fleiri slík úr smiðju Elvars Þórs hafa þegar verið afhjúpuð á síðustu árum og von er á fleirum í verslunina að sögn Sigfúsar Ólafs.
Sigfús Ólafur segir einstaklega gaman að ná samkomulagi við verslunina á 80 ára afmælisári ÚA, „og við sjómenn erum mjög montnir af þessum skipum og leggjum ofuráherslu á að fyrr en seinna rísi sjávarútvegssafn á Akureyri, þessum mikla útgerðarbæ, því það er svo mikið til af munum og minjum um útgerðarsöguna alla síðustu öld og fram á þennan dag, auk allra sagnanna sem sjómenn hafa að segja og það er keppikefli okkar að fanga þær sögur. “


