Harðbakur EA 3 aftur við Torfunefið

Glæsilegt líkan af Harðbak EA 3, einum síðutogara Útgerðarfélags Akureyringa, var afhjúpað á Torfunefsbryggju í dag að viðstöddu fjölmenni. Það var völundurinn Elvar Þór Antonsson sem smíðaði líkanið fyrir hóp fyrrverandi sjómanna á togurum ÚA en listaverkið afhjúpuðu tveir fyrrverandi skipverjar á Harðbak, Arngrímur Jóhannsson og Steingrímur Antonsson.
Arngrímur og Steingrímur eru þeir einu sem enn eru á lífi úr 30 manna áhöfn Harðbaks í sögulegum Nýfundnalandstúr 1959 þegar gerði slíkt gjörningaveður og grimmdarfrost í nokkra sólarhringa að margir togarar voru í stórhættu og einn íslenskur, Júlí GK frá Hafnarfirði, fórst með allri áhöfn, 30 mönnum. Steingrímur var háseti en Arngrímur nýútskrifaður loftskeytamaður, hann hélt upp á 19 ára afmælið nokkrum vikum síðar.
Útgerðarfélag Akureyringa keypti togarann frá Aberdeen í Skotlandi árið 1950 en fyrir átti félagið tvo togara, Kaldbak EA 1 og Svalbak EA 2. Þessir þrír voru nánast eins, en Harðbakur nokkrum fetum lengri og var því mun merkilegri að sumra mati – m.a. bræðranna Þorsteins og Kristjáns Vilhelmssona sem rifjuðu upp skemmtilegar sögur frá þeim tíma þegar faðir þeirra, Vilhelm Þorsteinsson, var skipstjóri Harðbaks. Báðir fóru þeir fyrst barnungir til sjós með föður sínum. ÚA gerði Harðbak EA 3 út allt til ársins 1976.
Líkanið sem afhjúpað var í dag er það sjötta sem Elvar Þór hefur smíðað fyrir hópinn sem áður er nefndur. Hin eru af Kaldbak EA 301, Svalbak EA 302, Sléttbak EA 304, Harðbak EA 303 og Sólbak EA 5. Þau líkön voru öll til sýnis við Torfunefið í dag. Sigfús Ólafur Helgason, sem fer fyrir þessum hópi fyrrverandi sjómanna ÚA, flutti ávarp í dag og minnti m.a. á mikilvægi þess að líkönunum yrði fundinn samastaður. Hann hefur löngum talað fyrir nauðsyn þess að koma á fót sjóminjasafni á Akureyri.
Bræðurnir Kristján, til vinstri, og Þorsteinn, synir Vilhelms Þorsteinssonar sem lengi var skipstjóri á Harðbak EA3 og síðar annar tveggja forstjóra Útgerðarfélags Akureyringa.
Steingrímur Antonsson og Arngrímur Jóhannsson virða líkanið fyrir sér andartaki eftir að þeir sviptu hulunni af glerkassanum utan um Harðbak EA3. Kristján Vilhelmsson fyrir miðri mynd.
Sigfús Ólafur Helgason, sem fer fyrir þeim hópi fyrrverandi sjómanna Útgerðarfélags Akureyringa sem látið hefur smíða líkön af nokkrum gömlum togurum félagsins, Steingrímur Antonsson og Arngrímur Jóhannsson.
Bræðurnir Þorsteinn og Kristján Vilhelmssynir ávarpa mannfjöldann í dag.