Fara í efni
Fréttir

Stellum fagnað með 50 ára millibili – MYNDIR

Sigurlaug Magnúsdóttir, ekkja Áka Stefánssonar skipstjóra á Sléttbak, og Halldór Hallgrímsson, skipstjóri á Svalbak, við líkanið sem þau afhjúpuðu í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Líkan af skuttogurum Útgerðarfélags Akureyringa, systurskipunum Svalbak EA 302 og Sléttbak EA 304, var afhjúpað við hátíðlega athöfn í  gær eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Þá voru nákvæmlega 50 ár síðan Stellurnar, eins og skipin voru jafnan kölluð, komu til heimahafnar í fyrsta skipti – 1. nóvember 1973.

Fjölmenni kom saman í matsal ÚA, í Stellupartí eins og Sigfús Ólafur Helgason forsprakki Stelluverkefnisins orðaði það í gær. Halldór Hallgrímsson, skipstjóri á Svalbak á sínum tíma og Sigurlaug Magnúsdóttir, ekkja Áka Stefánssonar skipstjóra á Sléttbak, afhjúpuðu líkanið, listasmíð Elvars Þórs Antonssonar á Dalvík.

Sigfús Ólafur er safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri og fyrrverandi sjómaður hjá ÚA. Hann rakti sögu skipanna tveggja. „Á þessari stundu eru nákvæmlega 50 ár síðan tvö skip sigldu hér fram hjá húsakynnum Útgerðafélags Akureyringa og flautuðu, það eru einmitt þessi tvö skip og þessi 50 ár sem draga okkur hingað í dag,“ sagði hann.

Karlakór Akureyrar - Geysir söng við athöfnina undir stjórn Valmars Väljaots.

Kristján Vilhelmsson, framkvæmdstjóri útgerðarsviðs Samherja, flutti ávarp á samkomunni.

Sigfús bað fólk um að hugsa 50 ár aftur í tímann, þegar tvö grá, glæsileg skip sigldu á fullri ferð inn á Akureyrarpoll. „Já, Stellurnar, þessi glæsilegustu skuttogarar sem siglt hafa í íslenskri fiskveiðilögsögu voru komin undir íslenskan fána, og höfðu hlotið nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304.“

Gríðarlega góð skip

„Skipin voru tiltölulega nýleg, smíðuð fyrir Færeyinga í Søviknes í Álasundi í Noregi árin 1968 og 1969 og hétu Stella Kristina og Stella Karina, algjör tímamótaskip í svo mörgum skilningi. Eigendur skipanna í Færeyjum, Laxafoss bræðurnir, Erling, Hallur og Trygvi voru langt á undan sinni samtíð í útgerð og Erling Laxafoss sá er veitti forstöðu fyrirtækinu Stella PF sem átti skipin, hannaði þau að mestu.“

Útgerðin gekk ekki sem skildi hjá þeim bræðrum, að sögn Sigfúsar, og því fór svo að ákveðið var að selja skipin. Gengið var frá kaupunum á Akureyri 7. ágúst 1973 en afhending tafðist. „Nokkrir íslenskir sjómenn voru lengi út í Færeyjum og voru þess albúnir að siglu þeim heim til Akureyrar. Biðin varð að vikum, vikur urðu að mánuðum. Í rúma þrjá mánuði biðu Akureyringar eftir skipunum sem keypt höfðu verið í Klakksvík í Færeyjum.“

Freysteinn Bjarnason yfirvélastjóri á Svalbak rifjaði upp mánuðina sem hann dvaldi í Færeyjum og daginn sem Stellurnar komu til heimahafnar.

Færeyringurinn Ólafur Høgnesen flutti ítarlega tölu um sögu Stellanna.

Skipin komu til Akureyrar 1. nóvember sem fyrr segir, þar sem múgur og margmenni tók á móti þeim á togarabryggjunni.

„Þetta voru gríðarlega góð skip sem öfluðu alltaf vel, fóru vel með áhöfn og hráefni og alltaf var á þeim úrvalsáhöfn,“ sagði Sigfús í gær. „Svo liðu árin og allaf voru skipin Svalbakur og Sléttbakur, Stellurnar, hluti af fengsælum skipastól Ú.A. sem fiskaði fyrir stórt og öflugt frysti- og fiskhús og var atvinnuskapandi fyrir fólkið í bænum og sannarlega ein af burðarstoðum atvinnulífsins hér. ÚA var óskabarn bæjarins.“

Eftir um það bil 30 ár í þjónustu ÚA voru Stellurnar seldar.

„Sléttbakur EA 304 varð að Akureyrinni, en svo síðar Snæfelli og þjónaði Samherja í nokkur ár en fór svo í úreldingu í september árið 2019. Svalbakur var hins vegar seldur til Siglufjarðar og varð þar Svalbarði um nokkurt skeið en var svo seldur til Rússlands og lauk þar með sögu þeirra hér á landi sem hófst 1. nóvember 1973,“ sagði Sigfús og bætti við:

„Það var svo í vor að sá er hér stendur rak augun í það í fjölmiðlum að skip sem hét á rússnesku STELLA Karína sem var áður Svalbarði og þar áður Svalbakur og hét í Færeyjum Stella Karína var komið upp í fjöru í Alang á Indlandi til niðurrifs. Það var þessi frétt sem setti í gang atburðarás sem í raun er ástæðan fyrir veru okkar hér í dag.“

Færeyingarnir Birgir Waag Høgnesen, til vinstri, og Ólafur Høgnesen við ræðupúltið. Sigfús Ólafur Helgason á milli þeirra.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri ávarpaði samkomuna.

Sigfús ákvað að heyra í hópi fyrrum sjómanna á Stellunum og ákveðið var að láta á það reyna hvort vilji væri til þess meðal fyrrum sjómanna á Stellunum að safna nægilega miklu fé til að hægt væri að láta smíða líkan af skipunum.

„Það sem á eftir kom er eiginlega lygasögu líkast og þann 14. mars hófst söfnunin, búin var til Facbook síða sem hét einfaldlega Stellurnar og þangað munstruðu sig inn fyrrum sjómenn sem svo einnig lögðu inn á söfnunareikning sem búinn var til um verkefni, og þann 17. maí í vor var undirritaður samningur, hér á lóð Ú.A. að sjálfsögðu, við Elvar Þór Antonsson á Dalvík um smíði á líkani af Stellunum.“

Halldór Hallgrímsson, skipstjóri á Svalbak, og Sigurlaug Magnúsdóttir, ekkja Áka Stefánssonar skipstjóra á Sléttbak, afhjúpuðu líkanið glæsilega í gær.

Halldór Hallgrímsson, skipstjóri á Svalbak, virðir fyrir sér líkanið fallega af „Stellunum“ tveimur. Dætur hans, Helga og Halla, fyrir aftan Halldór.

Sigfús Ólafur Helgason og Freysteinn Bjarnason ræða við Halldór Hallgrímsson skipstjóra á Svalbak.

Skipasmíðastöðin gaf allar teikningar af Stellunum

Sigfús upplýsti að stjórnendur skipasmíðastöðvarinnar í Søviknes við Álasund hefðu verið svo hrifnir af framtaki Akureyringanna að þeir ákváðu að gefa Stelluhópnum allar teikningarnar af skipunum sem hafi verið ómetanlegt við líkanasmíðina.

„Þessi Facebook hópur telur í dag 432 manns og það er svo gaman að segja frá því að í hópnum sem á sér engin landamæri eru milli 40 og 50 Færeyingar og það sagði manni að þótt langt sé um liðið, 50 ár síðan skipin voru í Færeyjum voru þeir ekki búnir að gleyma Stellunum sínum og það hefur verið einkar ánægjulegt að kynnast Færeyingum sem strax sýndu þessu brölti okkar mikinn áhuga,“ sagði Sigfús.

„Meðal okkar hér í dag eru tveir bræður sem komu gagngert frá Færeyjum til að vera með okkur í dag, þeir Birgir Waag og Ólafur Waag Høgnesen en Birgir gaf út fyrir nokkrum árum bók einmitt um Stellurnar, og það eitt að gefa út svo flotta bók um togara segir eiginlega miklu meira en mörg orð um hvað þessi skip áttu og eiga enn sterkar taugar í Færeyingum.“

Elvar Þór Antonsson við listasmíð sína sem afhjúpuð var í gær.


Boðið var upp á forláta Stellu-tertur með kaffinu.

Kvikmyndin „Stellurnar koma heim“  var sýnd í lok samkomunnar í gær. Þar var farið stuttlega yfir sögu Útgerðarfélags Akureyringa, og fjallað um Stellurnar, Svalbak EA 302 og Sléttbak EA 304.

_ _ _

SJÓMENN HEIÐRUÐU ÞORLEIF

Sigfús Ólafur Helgason notaði tækifærið á Stelluhátíðinni í gær og heiðraði Þorleif Ananíasson, fyrrverandi starfsmann á launakontór Útgerðarfélags Akureyringa, fyrir hönd gamalla sjómanna félagsins. Sigfús sagði sjómenn alla tíð hafa átt gott með að leita til Þorleifs á kontórnum. „Við fundum aldrei annað en hlýtt viðmót, skilning og samstöðu með okkur, og á þessum tímamótum sem við stöndum í dag langar okkur fyrrum Ú.A. sjómenn að segja við Þorleif: Takk fyrir viðmótið og vinarþelið sem þú sýndir okkur alla tíð.“

Þorleifur Ananíasson og Sigfús Ólafur Helgason.

_ _ _

Samið um smíði Svalbaks og Sléttbaks | akureyri.net

Skemmtilegasta sem ég hef komist í | akureyri.net