Fara í efni
Mannlíf

Lenti í alvarlegu slysi en leikur í kvöld

Eric Fongue, til vinstri, og Jordan Connors, Írinn sem meiddist og er farinn frá Þórsurum. Ljósmynd:…
Eric Fongue, til vinstri, og Jordan Connors, Írinn sem meiddist og er farinn frá Þórsurum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eric Fongue, Svisslendingur sem leikur með körfuboltaliði Þórs, lenti í alvarlegu bílslysi á mánudaginn og þykir mikil mildi að hann skyldi ekki slasast alvarlega. Fongue verður þrátt fyrir slysið með Þór í kvöld þegar liðið fær Keflavík í heimsókn í Subway deildinni, efstu deild Íslandsmótsins.

Tveir bílar rákust saman á Moldhaugahálsi á mánudaginn - sjá hér - og voru ökumenn beggja og farþegi í öðrum fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Fongue ók annarri bifreiðinni, sem rann yfir á öfugan vegarhelming og lenti framan á hinni, að því er kemur fram á Vísi í dag.

Nýr leikmaður meiddist!

Óheppnin hefur elt útlendingana hjá Þór í vetur. Tveir þeirra, Bandaríkjamaðurinn Jonathan Lawton og Írinn Jordan Connors (stundum nefndur Jordan Blount og einstaka sinnum Jordan Connors Blount á erlendum síðum!), meiddust báðir og eru farnir. Í þeirra stað koma Bandaríkjamaðurinn Reggie Keely, sem ekki getur leikið fyrr en gegn Þór í Þorlákshöfn í næstu viku, og Svisslendingurinn Jeremy Landendbergue. Sá síðarnefndi er orðinn löglegur en ekki vildi betur til en svo að hann meiddist á æfingu skv. frétt Vísis, þar sem fram kemur að óvíst sé að Landenbergue geti spilað í kvöld.

Leikur Þórs og Keflavíkur hefst klukkan 19.15 í Íþróttahöllinni.