Fara í efni
Mannlíf

Landsliðskonan Eva – ung með mikla reynslu

Eva Wium Elíasdóttir, til hægri, í leik með Þór síðasta vetur. Til vinstri er Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórsliðsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfubolta leikur í efstu deild Íslandsmótsins á ný í vetur eftir 45 ára bið. Fyrsti leikur deildarinnar er í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld þegar Stjarnan úr Garðabæ kemur í heimsókn.

Leikurinn hefst kl. 18.15. Akureyri.net fjallaði um tímamótin fyrr í dag: Fyrsti leikurinn í efstu deild í 45 ár

Eva Wium Elíasdóttir er ekki nema 19 ára, en hefur nú þegar öðlast mikla reynslu sem leikstjórnandi í Þórsliðinu og yngri landsliðum Íslands. Síðsumars fékk hún kallið frá A-landsliðinu og fór með liðinu í tvo æfingaleiki gegn Svíum í ágúst.

Eva segir mikla spennu fyrir leiknum í kvöld og smá stress með, en hún er bjartsýn á gengi liðsins á meðal þeirra bestu. „Ég trúi því að við náum að halda okkur í Subway-deildinni og held að við getum verið að berjast við bestu liðin, við getum verið að berjast við öll liðin í deildinni,“ segir Eva þegar hún er spurð út í leikinn í kvöld og væntingar um gengi liðsins í vetur.

Glaðasta liðið í deildinni

Stemningin og leikgleðin í Þórsliðinu vekur jafnan athygli heima og að heiman í leikjum og væntanlega á það ekkert eftir að breytast í vetur enda verkefnið orðið stærra, athyglin meiri og nýir mótherjar í flestum leikjum. Áhugafólk um körfubolta má búast við því að sjá glaðasta liðið í deildinni þegar Þórsliðið spilar í vetur.

Eva segir leikgleðina skila sér inn í leik liðsins. „Já, það er mikil gleði og kraftur í liðinu. Það skilar sér mjög mikið inn í leikina, bara að sjá stemninguna í stúkunni þegar maður mætir í Höllina, þá verður maður spenntari og þetta verður meira alvöru. Stelpurnar eru líka í svo miklu stuði ef það gerist eitthvað flott í leikjunum og ef einhver missir hausinn þá eru þær alltaf tilbúnar að pikka hver aðra upp.“

Eins og svampur í landsliðinu

Eva hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands. Akureyri.net sagði frá því í sumar þegar hún leitaði eftir stuðningi vegna mikils kostnaðar og vinnutaps vegna þátttöku í landsliðsverkefnum, í tengslum við ítarlegri umfjöllun um kostnað landsliðsfólks í ýmsum íþróttagreinum. Eftir margra vikna æfingar og keppni með U20 landsliðinu á Norðurlandamóti og Evrópumóti bættist eitt landslið enn í safnið hjá Evu. Hún var valinn í A-landsliðshóp fyrir tvo æfingaleiki gegn Svíum.

Eva kom heim úr landsliðsverkefninu reynslunni ríkari þó hún hafi ekki spilað mikið í leikjunum tveimur. „Það var ótrúlega gaman og maður hafði svo gott af því,“ segir hún um tímann með A-landsliðinu. „Maður var bara eins og svampur á æfingum, ég fylgdist vel með öllu sem stelpurnar voru að gera, horfði bara á allt.“ Eva segir virkilega gaman að hafa fengið kallið í A-landsliðið og fá tækifæri til að æfa með þeim bestu - og hún sá líka að hún á alveg heima með þeim bestu. „Það var líka svo gaman hvað þær tóku ótrúlega vel á móti manni og voru frábærar allar,“ segir Eva Wium Elíasdóttir, klár í leikinn í kvöld, átökin í Subway-deildinni í vetur og vonandi framhald á landsliðsferlinum.