Fara í efni
Íþróttir

Fyrsti leikurinn í efstu deild í 45 ár

Leikmenn Þórsliðsins glaðar í bragði eftir leik í æfingaferð til Portúgals í sumar. Mynd af heimasíðu Þórs.

Eftir um 45 ára bið er komið að fyrsta leik kvennaliðs Þórs í körfubolta í efstu deild í kvöld þegar Þór fær Stjörnuna í heimsókn í Íþróttahöllina. Leikur liðanna hefst kl. 18:15.

Eðlilega er mikil spenna og eftirvænting innan liðsins og félagsins enda ekki mörg ár síðan liðið vantaði aðeins herslumuninn upp á að klára dæmið í næstefstu deild þegar það vann deildarmeistaratitil, en tapaði í úrslitarimmu. Það gerir það líka enn sætara fyrir Þórsstelpurnar að fá að reyna sig gegn þeim bestu í Subway-deildinni að liðið var lagt niður tímabundið í eitt tímabil sem urðu svo tvö með aðstoð heimsfaraldurins. Þór tefldi nefnilega ekki fram kvennaliði tímabilin 2019-20 og 2020-21. Það dregur heldur ekki úr gleðinni að vera loksins komnar í efstu deild eftir 45 ára bið.

Þórsstelpurnar glaðar í bragði eftir sigurleik í 1. deildinni síðasta vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þriðja ár Daníels Andra

Eftir að liðið var endurvakið tók Daníel Andri Halldórsson við þjálfun þess og átti reyndar sjálfur stóran þátt í að koma liðinu af stað á ný. Á öðru ári í 1. deildinni endaði Þórsliðið í 2. sæti í deildinni, vann Snæfell í undanúrslitum og beið lægri hlut gegn Stjörnunni í oddaleik í úrslitarimmu deildarinnar. Þá þegar var reyndar vitað að bæði liðin færu upp í Subway-deildina þar sem ákveðið hafði verið að fjölga liðum í efstu deild.

Daníel Andri hefur unnið hörðum höndum frá því keppni lauk í vor að undirbúa sig, liðið og félagið fyrir átökin í Subway-deildinni. Hann hefur fengið til liðs við félagið tvo nýja erlenda leikmenn, auk tveggja íslenskra leikmanna. Maddie Sutton verður áfram í herbúðum Þórs og aðeins ein úr leikmannahópnum síðastliðinn vetur hefur leitað á önnur mið.

Þórsliðið eftir sigur í æfingaleik gegn Benfica í Portúgal um daginn.  

En það er ekki nóg að vera með gott lið því stuðningurinn skiptir líka máli. Daníel Andri er ekki í vafa um mikilvægi þess að fá góða mætingu í Höllina og ná upp góðri stemningu. „Ég vona að Akureyringar komi í Höllina í kvöld og styðji stelpurnar okkar í körfunni. Það eiga þær sannarlega skilið.“

Ánægður að byrja á heimavelli

Miklar breytingar verða á fyrirkomulagi Subway-deildarinnar með fjölgun liða úr átta í tíu. Fyrst verður spiluð tvöföld umferð, síðan skipt í efri og neðri hluta (fimm og fimm), spilað áfram innan hvors hóps og að því loknu fara átta efstu liðin í hefðbundna úrslitakeppni. Það eru tvöfalt fleiri lið en hafa áður farið í úrslitakeppni í efstu deild kvenna.

Daníel Andri Halldórsson þjálfari kvennaliðs Þórs í körfubolta. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Það er síðan skemmtileg tilviljun að Þór og Stjarnan skuli mætast í fyrstu umferðinni því lið Stjörnunnar var einnig lagt niður tímabundið fyrir ekki svo mörgum árum.

Daníel Andri er ánægður að fá heimaleik í fyrstu umferð og kveðst fullviss um að stelpurnar mæti grimmar til leiks í kvöld enda eiga þær í höggi við sama lið og í úrslitarimmu 1. deildarinnar í vor. Sú rimma fór í fimm leiki og Þórsarar unnu báða heimaleikina, auk þess að hafa unnið Stjörnuna í heimaleiknum í deildinni. En útileikirnir töpuðust og gamla klisjan „að eiga harma að hefna“ verður Þórsurum líklega ofarlega í huga í kvöld.

Vonast til að koma á óvart

„Ég vonast til að við getum komið á óvart í þessari frumraun okkar í efstu deild, 45 árum frá því að Þór átti síðast lið í efstu deild kvenna í körfubolta,“ segir Daníel Andri. Hann segir liðin sem voru í efri hluta deildarinnar á síðasta tímabili hafa verið að styrkja sig töluvert, en það hefur Þórsliðið einnig verið að gera. „Okkur finnst raunhæft að stefna á sæti í efri hlutanum þegar deildinni verður skipt í tvennt í lok janúar, en fyrst og fremst er bara virkilega ánægjulegt að fá tækifæri til að vinna að þessu markmiði öll saman, þjálfarar, leikmenn, stjórn og stuðningsliðið okkar,“ segir Daníel Andri.

Smellið hér til að sjá nánari umfjöllun um Þórsliðið á heimasíðu félagsins