Fara í efni
Mannlíf

Kirkjan í Grímsey orðin fokheld

Ljósmynd: Nikolai Galitzine

Ný Miðgarðakirkja í Grímsey er orðin fokheld og var turninum komið fyrir á sínum stað fyrir nokkrum dögum. 

„Að reisa byggingar í Grímsey, nyrstu byggð Íslands krefst mun meiri fyrirhafnar og kostnaðar en í landi. Til eyjarinnar þarf að flytja allt byggingarefni sjóleiðina og sömuleiðis jarðefni s.s. möl og sand,“ segir Anna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri kirkjubyggingarinnar, í tilkynningu sem send var í gær.

„Varðskipið Þór, skip Landhelgisgæslu Íslands lagði upp í reglulega eftirlitsferð frá Reykjavík í síðustu viku og tók með sér stuðlabergsskífur sem fara á þak nýju kirkjunnar. Í morgun kom skipið til Grímseyjar og efnið var flutt á gúmbátum í land. Fyrr í sumar kom skipið með timbur og grjót til kirkjubyggingarinnar.“

Samkoma ári eftir brunann

Á næstu dögum hefst vinna við að koma stuðlabergsskífunum fyrir á þaki kirkjunnar og að klæða hana með lerki að utan. Þann 21. september verður ár liðið frá bruna hinnar gömlu Miðgarðakirkju. Þann dag munu Grímseyingar og gestir koma saman í nýju kirkjunni, minnast þeirrar gömlu og gleðjast yfir vel unnu verki. Friðrik Ómar Hjörleifsson tónlistarmaður, er meðal þeirra sem fram munu koma, en húsið er auk helgihalds, sérstaklega hannað til tónlistar- og menningarviðburða.

„Í vetur verður kirkjan innréttuð og næsta vor gengið frá umhverfi hennar, en jarðrask varð umtalsvert meira en búist var við vegna fornleifafundar og bleytu í sumar. Fyrirhugað er að vígja nýja Miðgarðakirkju sumarið 2023, en nú er unnið að því að ljúka fjármögnun hennar,“ segir í tilkynningunni.

Hægt er að fylgjast með gangi fjársöfnunarinnar á heimasíðunni, www.grimsey.is/kirkja

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju:
Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer: 565-04-250731

Ljósmynd: Inga Lóa Guðjónsdóttir