Fara í efni
Mannlíf

Keflvíkingar taka á móti KA-mönnum í dag

KA-menn fagna sigurmarki Nökkva Þeys Þórissonar í blálokin þegar þeir fengu Keflvíkinga í heimsókn á Dalvíkurvöll í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA sækir Keflvíkinga heim í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. KA er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig en Keflavík í sjötta sæti með 17 stig, bæði eftir 13 leiki.

Keflavík tapaði á heimavelli fyrir Breiðabliki í síðustu umferð, 3:2, í hörkuleik en KA-menn rúlluðu yfir Leiknismenn í Reykjavík, 5:0.

Fyrri viðureign KA og Keflavíkur í deildinni í sumar var á Dalvík í byrjun maí. Leikurinn var bráðfjörugur og það voru dalvísku tvíburarnir Þorri Mar og Nökkvi Þeyr Þórissynir sem sáu um að skora fyrir KA; Þorri gerði fyrsta mark leiksins, Keflvíkingar komust í 2:1 en Nökkvi tryggði KA sigur með tveimur mörkum undir lokin; hann skoraði fyrst úr víti á 87. mín., eftir að brotið var á honum, og sigurmarkið gerði Nökkvi á 90. mínútu. Hér má sjá umfjöllun Akureyri.net um leikinn.