Fara í efni
Mannlíf

Með kassann úti! – Frumkvöðla- og nýsköpunarfélaginu Drift ýtt úr vör

Kristján Vilhelmsson, Kristján Þór Júlíusson, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson á sviðinu í Hofi í gær.

Nú styttist óðum í að Drift EA, frumkvöðla- og nýsköpunarfélag sem Samherjafrændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson stofnuðu, verði komið á það stig að fólk með stórar hugmyndir og nýsköpun á prjónunum geti nýtt aðstöðu sem verður í boði og fengið þann stuðning sem það þarf á að halda.

Fjölmenni var á kynningarfundi sem forsvarsmenn Driftar EA héldu í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í gær. Þar voru áherslur félagsins kynntar fulltrúum fræðanets, fyrirtækja og sveitarstjórna.

  • ATHUGIÐ – Í umfjöllun um kynningarfund Driftar sem birtist Akureyri.net í gærkvöldi var farið rangt með nokkur atriði, meðal annars um eignarhald félagsins. Fréttin var því fjarlægð og birtist hér uppfærð. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Á síðasta ári voru 40 ár síðan starfsemi Samherja hf. hófst á Akureyri og hafa frændurnir Kristján og Þorsteinn Már sagt að Drift EA sé stofnað í tilefni þeirra tímamóta og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfssvæði Samherja.

Drift EA er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun „með það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Tilgangurinn með stofnun félagsins er að gefa til baka til samfélagsins en um leið skapa tækifæri og byggja upp atvinnugreinar á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir í tilkynningu sem send var út í dag.

Fram kom í máli Þorsteins Más á fundinum í gær að til að koma fótunum undir nýsköpunarsetrið hafi þeir sett „200 milljónir inn á bankareikning sem við vonumst til að góðu fólki takist að eyða á næstunni,“ eins og hann orðaði það. Einnig að þeir hafi sagst myndu tryggja rekstur Driftar næstu fimm árin með árlegum verulegum framlögum.

Happ að framkvæmdir drógust

Drift EA verður með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri en fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf., sem er að hluta til í eigu sömu aðila, festi kaup á húsnæðinu í lok árs 2022. Unnið hefur verið að gagngerum endurbótum húsnæðisins, þannig að það þjóni sem best metnaðarfullri starfsemi Driftar EA. 

Að loknum kynningarfundinum héldu gestir, líklega um 200 manns, yfir í Landsbankahúsið – eða Kaldbakshúsið – eða Driftarhúsið, eftir því hvernig á það verður litið þegar fram líða stundir. Meðal þess sem fram kom í máli Kristjáns Vilhelmssonar var að upphaflega hafi hugmyndin verið að hefja starfsemi og taka á móti fyrstu frumkvöðlum í mars á þessu ári, en framkvæmdir og endurbætur á húsinu hafa reynst viðameiri en lagt var upp með í upphafi og það hafi í raun reynst heppni þeirra sem að félaginu standa því þar með hafi þeim gefist betra rúm til að forma og undirbúa verkefnið.

Frá vinstri: Kristján Vilhelmsson, stjórnarmennirnir Kristján Þór Júlíusson, formaður, Edda Lára Lúðvígsdóttir og Arnar Árnason, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastýra og Þorsteinn Már Baldvinsson.

Finnum frumkvöðlana!

Eins og staðan er í dag er hugmyndin að upp úr verslunarmannahelgi verði hægt að taka við þeim fyrstu sem óska eftir að nýta aðstöðuna. Á næstu dögum eða vikum verður auglýst eftir umsóknum frá frumkvöðlum og fólki í nýsköpunarhugleiðingum, en Þorsteinn Már sagði það sína skoðun að fyrirtækið ætti einnig sjálft að finna frumkvöðlana og ná þeim inn.

Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður Driftar, benti einnig á mikilvægi þess að fyrirtæki á svæðinu stæðu saman í sókn fyrir svæðið – með kassann úti! „Við ætlum að byggja upp á þessu svæði. Það gerir það enginn fyrir okkur,“ sagði Kristján Þór meðal annars.

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir er framkvæmdastýra Driftar. Hún segir félagið verða brúarsmið milli fyrirtækja, frumkvöðla og fræðanets. „Það þarf að nýta alla þá þekkingu og reynslu sem er á svæðinu til að efla hugvit og hvetja fólk til að hugsa stórt. Við höfum allt í þetta ef við leggjumst öll á árarnar.“

  • Vert er að geta þess að á fundinum í gær var merki Driftar EA kynnt og samfélagsmiðlar félagsins opnaðir:

Drift EA á Instagram

Drift á LinkedIn

Hlunnurinn auðveldar sjósetningu

Kynningin á Drift EA bar þess merki að frumkvöðlarnir að stofnun þess hafa starfað í sjávarútvegi í áratugi og meðal annars er notast við hugtök eins og brúin, messinn og hlunnur. Það síðastnefnda útskýrðu Kristján Þór og Sesselja í sameiningu sem íslenskun á hugtakinu incupator. Hlunnur er gamalt hugtak úr sjómennsku og eru í raun trjábolir, hvalbein eða annað sem raðað er upp og notað þegar báti er ýtt úr vör eða hann tekinn á land. Bátnum er þá rennt eftir hlunninum og er þá verið að hlunnfæra hann. Hugmyndin er að hjálpa til við að undirbúa nýsköpunarhugmyndir fyrir framtíðina, hlunnfæra þær og koma þeim af stað í sjóferðina.

STOFNENDUR
Samherjafrændurnir Kristján Vilhelmsson, til vinstri, og Þorsteinn Már Baldvinsson, á sviðinu í Hofi í gær. Þeir segja hið nýja félag, Drift EA, stofnað í tilefni 40 ára afmælis Samherja á síðasta ári og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfssvæði Samherja, eins og áður hefur komið fram.

  • Kristján Vilhelmsson: „Við frændur höfum lengi haft ómótaðar hugmyndir um að gera eitthvað nýtt fyrir komandi kynslóðir. Sýnin varð skarpari þegar gott verkfæri bauðst, frábært húsnæði sem héldi utan um starfsemi hugmyndarinnar. Það er hið fallega Landsbankahús við Ráðhústorg. Við köllum nú eftir samstarfi við sem flest fyrirtæki og einstaklinga um þetta mikilvæga verkefni.“
  • Þorsteinn Már Baldvinsson: „Drift EA er ætlað að blása til nýrrar sóknar og veita frumkvöðlum aðstöðu, faglega ráðgjöf og fjárstuðning, með það að markmiði að auka verðmætasköpun og ýta undir vöxt atvinnulífsins. Þetta tel ég geta orðið gott tækifæri fyrir ungt og kraftmikið fólk til að búa hér á svæðinu og starfa. Við frændur finnum fyrir ríkum áhuga atvinnulífsins á þátttöku, nýsköpun er nauðsynleg til áframhaldandi uppbyggingar.“

Drift EA í stuttu máli:

  • Hvað? – Miðstöð frumkvæðis og nýsköpunar
  • Hvernig? – Stuðningur og tengslanet, aðstaða og fjármagn
  • Hvers vegna? – Skapa spennandi tækifæri fyrir komandi kynslóðir
  • Messinn – Samkomustaður skapandi fólks og fyrirtækja
  • Kveikjan – Nýsköpun innan starfandi fyrirtækja
  • Áherslur – Matvælaframleiðsla og hugbúnaður í sjávarútvegi, heilbrigðismál, líftækni, grænar lausnir
  • Brúin – Tengir saman frumkvöðla, fræðanet og fyrirtæki
  • Hlunnur – Styður frumkvöðul úr slipp í sjóferð

Landsbankahúsið, sem ef til vill festist í sessi sem Kaldbakshúsið ... eða Driftarhúsið. Drift verður með aðstöðu á 3. og 4. hæð hússins, en fjárfestingafélagið Kaldbakur, eigandi hússins, er nú þegar með skrifstofur á 2. hæð.