Fara í efni
Mannlíf

KA-menn töpuðu fyrir toppliði Hauka

Morten Linder, til vinstri, gerði 10 mörk fyrir KA í gærkvöld og Jens Bragi Bergórsson átta. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði í gærkvöld með fjögurra marka mun fyrir Haukum, 42:38, í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Eins og sjá má á tölunum voru bæði lið í miklum sóknarhug en hvorki varnarleikur né markvarsla í hávegum. Í fyrri hálfleik gerðu liðin 36 mörk á 30 mínútum og á 60 mínútum urðu mörkin alls 80, liðlega 1,3 að meðaltali á mínútu.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi. KA hafði tveggja marka forystu í hálfleik, 19:17, og var áfram skrefinu á undan fram í miðjan seinni hálfleik. Þá settu Haukar í fimmta gír, komust fram úr og juku muninn hægt og bítandi. Mestur varð hann sex mörk, fyrst 37:31 þegar sex mínútur voru eftir, en KA-menn klóruðu í bakkann og munurinn var fjögur mörk í lokin sem fyrr segir.

Mörk Hauka: Andri Fannar Elísson 10 (7 víti), Freyr Aronsson 8, Adam Haukur Baumruk 6, Össur Haraldsson 6, Ólafur Ægir Ólafsson 5, Hergeir Grímsson 4, Þráinn Orri Jónsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Jón Ómar Gíslason 1.

Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 6, þar af 1 víti (17,6%) – Magnús Gunnar Karlsson 1 (9,1%).

Mörk KA: Morten Linder 10 (3 víti), Jens Bragi Bergþórsson 8, Magnús Dagur Jónatansson 5, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 5,  Logi Gautason 4, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 3, Daði Jónsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Bruno Bernat 1.

Varin skot: Bruno Bernat 8, þar af 2 víti (16,7%). Guðmundur Helgi Imsland 0.

Öll tölfræði HB Statz

KA-menn eru í fjórða sæti deildarinnar eftir leikinn í gær með 16 stig og Haukar efstir með 20. Tveir aðrir leikir voru á dagskrá í gær, Afturelding burstaði HK 41:33 og Selfoss sigraði ÍR 35:34. Annað kvöld fær Stjarnan lið ÍBV í heimsókn og FH tekur á móti Val. Með sigri færi FH einu stigi upp fyrir KA en vinni Valsarar í Hafnarfirði fara þeir upp að hlið Hauka á toppnum.

Umferðinni lýkur á laugardag þegar Þórsarar frá Íslandsmeistara Fram í heimsókn. Með sigrinum í gær fóru Selfyssingar upp í níunda sæti, hafa níu stig. HK er með átta stig, Þór er með sjö og ÍR á botninum með 5.