Fara í efni
Mannlíf

„Göngutúr“ Haraldar lokið - hleypur á ný

Haraldur Ingólfsson á göngu við Hrappsstaðaá í Lögmannshlíð um síðustu helgi.

Haraldur Ingólfsson, liðsstjóri kvennaliðs Þórs/KA í fótbolta, lauk í gær „göngutúr“ sínum um allar götur Akureyrar. Hann tók upp á því fyrr á árinu að hlaupa til styrktar liðinu, einn kílómetra fyrir hvert sokkapar sem stelpurnar seldu, og safnaði áheitum. Pörin urðu 310 og Halli stóð við stóru orðin.

Þegar fyrsta verkefninu var lokið ákvað Halli að „fara“ þúsund mílur – 1.609 kílómetra – áður en Íslandsmóti kvenna lyki og náði því; var ánægður með að hafa sagst ætla að „fara“ vegalengdina, því þá gat hann með góðri samvisku bæði hlaupið og gengið.

Að því loknu hófst ganga um allar götur bæjarins, eins og greint var frá hér á vefnum um daginn. Hann segir það verkefni reyndar aðallega til þess að hita upp fyrir næsta „sokkaparahlaup“! Og gangan varð mun lengri en hún hefði þurft að vera. Sumar göturnar gekk hann nefnilega aftur og aftur. Og þegar hann gekk upp í Hlíðarfjall voru ekki margir auðveldir möguleikar í boði aðrir en ganga sömu leið til baka!

  • „Göngutúrinn“ hófst 22. október og honum lauk 23. nóvember.
  • Haraldur gekk 17 þessara daga
  • Hann gekk um 244 kílómetra - lengd gatnakerfis, skv. upplýsingum Akureyrarbæjar eru 143 km
  • Götur sem hann gekk síðasta daginn: Hraunholt, Einholt, Langholt, Þverholt, Miðholt, Stafholt, Undirhlíð (að hluta), Krossanesbraut (að hluta) og Óseyri (að hluta).
  • Spottar sem hann sleppti: Öllum götum í hesthúsahverfunum og örfáum leiðum heim að stökum húsum.
  • Gata sem Haraldur fann ekki: Starasíða! 

Halli nefndi að gangan væri nokkurs konar upphitun fyrir næsta „sokkaparahlaup“ og þar sem hann er vel heitur hleypur hann af stað á ný strax í dag. „Stelpurnar voru að ljúka sokkasölu, seldu 286 pör svo ég stefni að því að hlaupa 286 kílómetra fyrir jól,“ segir hann.

Fyrri grein um hlaup og göngu Haraldar