Fara í efni
Mannlíf

Gríðarleg tækifæri í skógrækt á Íslandi

„Það er hópur fólks sem er hámenntað og vel að sér sem er virkilega að berjast á móti skógrækt,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir í Sólskógum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Í fyrri tveimur hlutum umfjöllunar um Sólskóga og viðtals við Katrínu Ágústsdóttur hefur sagan verið rakin frá því að fyrirtækið var stofnað austur á Héraði, færði út kvíarnar með kaupum á gróðrarstöðinni í Kjarna við Akureyri rétt fyrir hrun og þegar þau hættu rekstrinum á Héraði til að einbeita sér að stærri markaði hér á Akureyri.

Loftslagsbreytingar ber á góma í tengslum við ræktunina og allt sem henni fylgir enda er ræktun skógarplantna og sumarblóma mjög háð veðri. Hvernig horfa loftslagsbreytingar við svona starfsemi? Eruð að fást við einhverjar afleiðingar þeirra í ykkar starfi?

„Veður skiptir okkur svakalegu máli. Við erum alltaf að fylgjast með veðrinu. Veður er bara lykilatriði í bransanum, bæði upp á sölu og líka upp á skemmdir og alls konar,“ segir Katrín. Þó loftslagsbreytingar séu í sjálfu sér neikvæðar eru verkefni þeim tengd hagstæð fyrir ræktendur skógarplantna. „Það er þessi þrá margra til að planta meiri skógi og það eru gríðarleg tækifæri á Íslandi. Landið er meira og minna skóglaust, aðeins um 0,5% landsins er ræktaður skógur,“ segir Katrín, en bætir við að hér sé meiri skógur, náttúrulegir birkiskógar og kjarr. Hér séu því mikil tækifæri til að bæta við, öfugt við til dæmis hjá nágrönnum okkar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. „Þannig að loftslagslega séð eru Íslendingar í gríðarlega góðum málum ef þeir vildu bara horfast í augu við það,“ segir Katrín. Hún vísar þar til þess að ákveðinn hópur berjist á móti skógrækt með þjóðernisstefnu að vopni, vilji ekki sjá hér landnema. En strangt tekið eru aðeins birki og reynir íslenskar trjátegundir.

„Það er hópur fólks sem er hámenntað og vel að sér sem er virkilega að berjast á móti skógrækt,“ segir Katrín til útskýringar. Hún bendir á að sveitarfélögin fari með skipulagsmálin í þessum efnum og því sé verið að atast í sveitarstjórnarfólki varðandi leyfisveitingar, fólk verði óöruggt í kringum þetta og viti ekki hvað er í lagi og hvað ekki. „Fólk verður jafnvel óöruggt að fara eftir lögum og reglum af því að það eru einhverjar tilfinningar í gangi um það að svona plöntur megi ekki vera til á Íslandi, en aðrar megi það. Þetta er erfitt, mikið tilfinningamál.“ Hún segist skilja sumt af þessu, eins og með lúpínuna þó hún komi þessu ekki beint við. Mikil átök hafa verið í kringum lúpínuna.

Átök um stafafuruna

„Núna eru orðin átök í kringum stafafuru af því að fólki finnst hún vera að sá sér út, en staðreyndin er sú að það er í langflestum tilfellum mjög auðvelt að stjórna því. Stafafuran byrjar að framleiða fræ þegar hún er orðin kannski tíu ára eða 15 ára, þá sáir hún sér yfirleitt bara rétt hjá og ef menn vilja það ekki þá slá menn það bara eða rífa upp,“ segir Katrín. Hún segir vera hræðslu við þennan hóp fólks, en fyrir henni séu þetta öfgar sem hafi fengið einhvern veginn að njóta sín meira eins og í svo mörgu öðru í heiminum í dag. „Öfgar í heiminum eru einhvern veginn á alla kanta að fá meira rými og við erum hrædd um að ef það verður gefið eftir þarna þá verði næst farið að ráðast á grenið og síðan á lerkið.“ Hún bendir á að allar plöntur sem eru orðnar landnemar á Íslandi, og þær séu margar, sái sér að einhverju leyti út.

„Þetta er líka svo erfitt fyrir bændur sem vilja rækta landið sitt, þeir eiga þetta land, og skógrækt er landbúnaður, þetta er inni í landbúnaðargeiranum. Þetta er ekkert öðruvísi en að sá korni, nema að það tekur fleiri ár að rækta skóginn upp. Þetta er bara landbúnaður af því að þú ætlar að höggva skóginn að lokum,“ segir Katrín. Hún bendir á að það sé oft vandkvæðum bundið að fá framkvæmdaleyfi af því að það sé alltaf verið að atast í sveitarstjórnarfólkinu, að passa sig á þessu. Sumir bændur gefist upp á þessu af því að þetta sé orðið svo mikið mál.

„Þetta hefur gert þetta mjög erfitt og það er alls staðar eitthvað stopp og þegar það er búið að framleiða plöntur fyrir eitthvað svæði og reiknað með að leyfið fáist af því að menn sjá ekkert í veginum þá er allt í einu bara allt stopp. Það eru átök í kringum skipulagsmálin. En þetta er nú gjarnan með allar breytingar, fólk er ekki alveg inni á þeim.“

Úða mjög lítið gegn skordýrum

Spurð út í veðurfar og breytingar segist Katrín upplifa helst að veðurkerfi staldri lengur við. Þennan mánuðinn sé kalt, næsta hlýtt og svo framvegis. Hún tekur dæmi af síðustu mánuðum. Í nóvember á liðnu ári hafi verið hlýtt, gríðarlega kalt í desember og fram í janúar, síðan hlýindi meira og minna allan febrúarmánuð og svo svakalegur vetur í mars. Svipaða sögu sé að segja frá sumrinu. „Ég átta mig ekki alveg á því hvaða áhrif það mun hafa á okkur. Það fer eftir því hvort þetta heldur áfram að þróast svona eða hvar þetta stoppar. Það er mikil óvissa í kringum þetta,“ segir Katrín þegar rætt er um veðurfar og loftslagsbreytingar.

Hlýnandi loftslagi geta fylgt nýjar lífverur, önnur skordýr en hér þekkjast núna, en þess hefur þó ekki séð stað í rekstri Sólskóga. Til að mynda er mjög lítið úðað gegn skordýrum. „Við höfum mjög litlar áhyggjur af skordýrum hérna,“ segir Katrín, þó auðvitað séu til staðar pöddur eins og sitkalús, stóra sitkalús, asparglytta og fleiri. Asparglyttan sé þó mikið vandamál fyrir sunnan, en ekki hérna.

„Við notum nánast engin efni. Við erum aðeins að nota sveppalyf,“ segir Katrín. Hún tekur þó fram að Sólskógar séu ekki lífræn ræktun, þar sé notaður tilbúinn áburður. „Við notum einstaka sinnum skordýralyf, það gerist mjög sjaldan og mjög staðbundið.“ En sveppalyfin eru nauðsynleg og segir Katrínu fyrirtækið ekki geta lifað án þeirra. „En það hefur verið mikill vandi hér á Íslandi, það er nánast búið að banna öll sveppalyf hérna. Við erum lítið land og fyrirtækin úti í heimi hafa mjög takmarkaðan áhuga á að skaffa okkur efni og íslenska stjórnkerfið hefur afar lítinn áhuga á að vinna í því að leyfa lyf.“ Katrín kveðst horfa mikið til þess sem gert er í Noregi og þar séu mörg sveppalyf leyfð. Hér séu bara tvö eða þrjú. „Það háir okkur gríðarlega hérna hvað við erum aftarlega á merinni í þessu orðið.“

Hvað orsakar það?

„Ég held að það sé bæði af því að við erum svo lítil og það er bara ekki nægilega mikið af menntuðu og áhugasömu fólki til að vinna þetta og koma þessu í gegn. Okkar bransi er pínulítill, þessi skógarplöntubransi. Það eru bara tvær gróðrarstöðvar sem eru eitthvað að ráði í þessu. En við höfum verið að reyna að virkja skógræktina og skógarfólkið með okkur, því það er lykilatriði að plöntuframleiðslan verði í lagi.“

Akureyri hefur farið vel með fjölskylduna, fyrirtækið blómstrar og þau Katrín og Gísli búa sig undir að bakka út úr fyrirtækinu, en sonurinn og tengdadóttirin starfa við fyrirtækið og munu taka við keflinu. „Tíminn hér á Akureyri hefur verið mjög gefandi og lærdómsríkur. Við höfum kynnst mörgu góðu fólki. Hér er gott að ala upp börn og nú eru öll okkar börn og flest barnabörnin flutt hingað norður líka og við hlökkum til að eldast hér á Akureyri,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir hjá Sólskógum.