Fara í efni
Mannlíf

Miklar breytingar orðið með tíð og tíma

„Ég held að þetta sé svo mikill hluti af manni að vera í þessum bransa, það er bara algjör lífsstíll að vera í þessu,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Í fyrsta hluta viðtals við Katrínu Ágústsdóttur og Sólskóga í gær var rakin saga fyrirtækisins frá því að þau hjónin stofnuðu það austur á Héraði og ræktuðu plöntur í sumarbústaðalandi foreldra Katrínar suður í Lóni. Þau gripu síðan tækifæri sem bauðst á Akureyri, en héldu áfram rekstrinum á Kaldá á Völlum.

Sólskógar hættu rekstri austur á Héraði 2015, en þá höfðu þau verið á báðum stöðunum í um átta ár. „Það var svo sem margt sem olli því,“ segir Katrín um lokun stöðvarinnar fyrir austan. „En við erum alltaf mjög vel tengd við Austurland og þykir vænt um allt þar.“ Hún samsinnir því að það hafi verið of viðamikið og flókið að vera á báðum stöðunum. „Já, það var bara ekki framtíð í því. Við vorum að vaxa svo mikið hér og takast á við svo margt hér þannig að við vorum ekki að sinna þessu nógu vel fyrir austan.“

Hér eru þau á stærri markaði, auk þess sem aðrir aðilar voru að koma inn á markaðnum fyrir austan og þegar um lítinn markað er að ræða skiptir máli að búa á svæðinu. Það skapi góðvild sem skiptir máli fyrir reksturinn.

Katrín og sonur hennar, Guðmundur Gíslason, við róbótinn sem sér um umplöntun á fyrstu stigum ræktunarinnar - eina tæki sinnar tegundar á Íslandi.

Áratugurinn eftir hrun var alls ekki auðveldur og Katrín segir vissulega hafa komið tíma sem fékk þau til að hugsa sinn gang, en þau hafi þó aldrei rætt um að hætta.

„Nei, ég held að við höfum aldrei leyft okkur það. Ég held að við höfum haft gaman af þessu, þetta er lífsstíll. Auðvitað koma tímar, það koma erfiðleikar, það koma áföll og þá fer maður að hugsa.“ Hún segir alla sem starfa í þessum bransa, fólk og fyrirtæki sem hún þekkir og hefur verið samferða í gegnum þetta allt saman, lenda í alls konar áföllum og það komi tímar sem hugsunin sé að hætta. „Það koma vor þar sem er frost í júní og allt fer í klessu. Það getur svo margt gerst. Svo eru vetraráföll, erfiðir vetur, tjón í veðrum. En ég held að þetta sé svo mikill hluti af manni að vera í þessum bransa, það er bara algjör lífsstíll að vera í þessu.“

Einkamarkaðurinn vex

Þessi geiri hefur líka breyst töluvert á þeim tíma sem þau hafa rekið Sólskóga. „Þetta er að breytast mjög núna því einkafyrirtæki eru að koma inn sem kaupendur. Áður fyrr var ríkið að kaupa 99,9% skógarplantnanna, en núna er einkamarkaðurinn að vaxa. Það eru fyrirtæki sem eru í kolefnisjöfnunarverkefnum. Það er það sem heldur vextinum gangandi núna, kolefnisjöfnunin.“

Eftir að hafa haft hægt um sig í tíu ár, eins og Katrín orðar það í framhaldi af hruninu fóru þau loksins að sjá árangur erfiðisins. „Það er 2018 sem við áttum okkur á því og höfum trú á að það sé vöxtur fram undan. Við vissum þá líka að Barri var að draga saman þannig að við sáum að það voru mikil tækifæri og ákváðum að byggja annað gróðurhús og fara í meiri framleiðslu.“

Þau hafa fjárfest töluvert á undanförnum árum, bæði í byggingum og tækjum. Til að mynda er þar eina tæki sinnar tegundar á Íslandi, róbot sem sér um umplöntun á fyrstu stigum ræktunarinnar. Í stað þess að sá beint í bakkana sem plönturnar eru afhentar í, verður nú sáð í svokallaða micro-bakka. Þá komast um fjórar milljónir plantna í 2.000 m2 gróðurhús í stað 800 - 1.300 þúsund plantna. Það gefur möguleika á að framleiða meira og einnig verður nýting meiri á útiplöntum þar sem ætla má að planta verði í hverju hólfi bakkans. Róbótinn sem sér um að færa plönturnar úr micro-bökkunum í stærri hólf er tölvustýrður og er stýrt í gegnum myndavélar, sem nema hvar eru plöntur.

Breytingar með tíð og tíma

Talið berst að garðplönturæktuninni og kemur í ljós að þar eru tískusveiflur, eða í það minnsta breytingar með tíð og tíma.

„Já, það hafa orðið miklar breytingar. Áður voru alltaf sett limgerði í kringum garðinn og einu sinni var það þannig að verktakar skiluðu húsum þannig að það var ekki bara grasblettur, það var smá limgerði líka. Þetta er alveg hætt. Þessi sala og þessi mikla áhersla á ramma í kringum garðinn er alveg hætt,“ segir Katrín. Hún segir garða líka hafa minnkað og að minna sé um gróður í nýjum hverfum, bendir á Naustahverfið sem dæmi. Þar séu nánast engar plöntur. „Þetta var ekki áður, það var alltaf eitthvað um plöntur, meira að segja við blokkir, alltaf plantað einhverju til að afmarka lóð blokkarinnar, eða eitthvað slíkt.“ Þarna hafa orðið miklar breytingar að sögn Katrínar. Hún nefnir einnig sumarblómin þar sem stjúpan var lengi vel ráðandi, en nú hafi aðrar tegundir sótt á og fólk kaupi frekar stærri blóm og færri. Í stað blómabeða sé nú algengara að vera með blóm í potti á pallinum.

Fjölskyldurekstur. Gísli og Katrín eru byrjuð að undirbúa að draga sig út úr rekstrinum og sonur þeirra, Guðmundur, og tengdadóttir, Álfsól Lind Benjamínsdóttir, taki við. Guðmundur og Álfsól starfa nú þegar hjá fyrirtækinu.

Stefna á að bakka út

Þó ástríðan liggi í ræktuninni hjá þeim báðum sér Katrín alfarið um viðskiptahliðina. „Ég hef líka mjög gaman af að vera úti í gróðurhúsi og passa mig að vera alltaf eitthvað þar líka.“ Hún er þó ekki ein í rekstrinum því hún er með starfsfólk á skrifstofu og bókhaldið er að hluta fært hjá bókhaldsfyrirtæki.

Mögulega togast ástríðan fyrir ræktuninni og vinnan við viðskiptahlið fyrirtækisins eitthvað á hjá Katrínu, en hún hefur starfað lengi í þessum geira og þekkir allt saman út og inn.

„Ég er bara með svo yfirgripsmikla þekkingu að ég get ekkert afhent það. Ég get ekki afhent yfirsýnina, innkaupin og umsjónina. Ég mun gera það á næstu árum. Við hjónin erum að stefna inn í að bakka út úr þessu, en það tekur einhver ár að bakka út. Það skiptir miklu máli að vera í góðum samskiptum og með góðar tengingar. Þetta er ekki stór geiri hér á landi, ekki margt fólk. Ég þekki alla í þessu vel og það skiptir máli að vera í góðum samskiptum við viðskiptavinina.“

„Við erum með frábæra starfsmenn hérna, ofboðslega trausta og góða starfsmenn sem breytir öllu. Það er svo mikilvægt,“ segir Katrín.

Styttist í starfslokin

Katrín segir þó aðspurð að hún sjái sjálfa sig núorðið alveg fyrir sér að gera eitthvað annað enda eru þau hjón farin að undirbúa það að draga sig út úr rekstrinum. „Mér finnst það spennandi tilhugsun. Ég hef verið í þessu síðan ég var um tvítugt,“ segir hún.

En reksturinn er ekki að fara langt þó það styttist í að þau dragi sig út. Sonur þeirra, Guðmundur, starfar við stöðina og tengdadóttir þeirra, Álfsól Lind Benjamínsdóttir, er að koma til starfa eftir mastersnám. Þau munu taka við rekstrinum innan ekki svo margra ára.

Katrín hefur því engar sérstakar áhyggjur af framtíð Sólskóga, veit að fyrirtækið verður í góðum höndum. „Þau taka við og svo erum við með frábæra starfsmenn hérna, ofboðslega trausta og góða starfsmenn sem breytir öllu. Það er svo mikilvægt. Þá er maður öruggari að geta farið, þegar maður finnur að það er góður grunnur.“

Katrín gefur ekki beinlínis upp hvað þau Gísli ætli að taka sér fyrir hendur, en að minnsta kosti er ekki á dagskrá að fara út í einhvern annan rekstur. Þau eiga líka inni gott sumarfrí þegar að umskiptunum kemur. „Við tökum eiginlega aldrei sumarfrí, erum farin að hlakka til að dunda okkur eitthvað. Ég held að það sé algengt í verktakabransa og hjá svona atvinnurekendum, að á þessum tíma fari fólk að horfa til þess að taka því rólega.“

Hún segir það líka lýjandi að standa í svona rekstri í áratugi enda séu þau vakin og sofin yfir verkefnunum. Þau hafa líka lagt mikla vinnu í uppbyggingu á síðastliðnum árum, það tekur á og þau hafa unnið mikið í því sjálf.