Fara í efni
Mannlíf

„Stóriðja“ Katrínar og Gísla í Kjarnaskógi

Hjónin Gísli Guðmundsson og Katrín Ásgrímsdóttir eigendur Sólskóga. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Í Kjarnaskógi leynist áhugavert fyrirtæki sem er örugglega mun stærra en mörg okkar gera sér grein fyrir. Stóriðja er eiginlega réttnefni því hjá Sólskógum eru ræktaðar milljónir skógarplantna og þúsundir sumarblóma og garðplantna á hverju ári sem fá svo framhaldslíf í görðum, á lóðum og í skógræktarreitum um allt land.

Hjónin Katrín Ásgrímsdóttir og Gísli Guðmundsson stofnuðu Sólskóga austur á Héraði fyrir rúmum þremur áratugum, færðu út kvíarnar til Akureyrar þegar þau keyptu þrotabú gróðrarstöðvarinnar í Kjarnaskógi fyrir tæpum tuttugu árum og hafa nú í átta ár eingöngu starfað á Akureyri. Þau fjárfestu og fóru í framkvæmdir rétt fyrir hrun, náðu með útsjónarsemi og dugnaði að komast í gegnum þann skafl og hafa undanfarin fimm ár notið ávaxta erfiðisins. Rekstur Sólskóga blómstrar, en þau eru þó farin að huga að því að draga sig út úr rekstrinum – þó þannig að hann verði áfram innan fjölskyldunnar.

Í dag birtist fyrsti hluti viðtals við Katrínu Ásgrímsdóttur.

  • Á MORGUN Miklar breytingar orðið með tíð og tíma


Rekstur Sólskóga byrjaði smátt, en ekki alveg svona smátt. Fyrstu skrefin voru tekin í reit hjá foreldrum Katrínar suður í Lóni og á jörðinni Lönguhlíð á Völlum.

Heillaðist af skóginum

Katrín og Gísli eru bæði menntuð frá Garðyrkjuskóla ríkisins og kynntust óbeint í tengslum við skólann. Hún er ættuð frá Hornafirði, en hann úr Reykjavík. Saman hófu þau rekstur austur á Héraði á níunda áratug liðinnar aldar.

„Ég dró Gísla eiginlega austur,“ segir Katrín þegar blaðamaður Akureyri.net sest niður með henni á kaffistofu Sólskóga. Gísli er úti við að sýsla við garðplönturnar, uppáhaldið hans. „Ég hafði unnið á Hallormsstað í tvö sumur, ´82 og ´84. Þá kynntist ég aðeins þessari skógarplönturæktun og varð heilluð af skóginum. Það var ofboðslega gott sumar, annað sumarið sem ég var fyrir austan.“

Þau Gísli fundu ríkisjörð í Vallahreppi á Héraði sem komin var í eyði og fengu hana. Þau fluttu austur fyrir jólin 1988 og stofnuðu fyrirtækið, en Katrín vann áfram hjá skógræktinni allar götur til 1997, en Gísli sá um reksturinn fyrstu árin.


Sumarblómin eru yndi Gísla og hann einbeitir sér mest að þeim. 

Áhuginn kviknaði í Lóni

Katrín er ættuð frá Hornafirði eins og áður sagði og því vaknar sú spurning hvaðan áhuginn á skógrækt hafi komið því almennt tengi fólk Hornafjörð ekki beint við skógrækt.

„Nei, en pabbi var mikill skógræktarmaður. Þau áttu sumarbústað uppi í Lóni og hann fékk mikinn áhuga á ræktun, var í mörg ár formaður Skógræktarfélagsins fyrir austan. Hann stóð fyrir því að Haukafell var keypt, sem er land skógræktarfélagsins þar sem er útivistarsvæði. Það er kannski í gegnum það sem ég fæ áhuga á þessu,“ segir Katrín um tengingu Hornfirðingsins við skógræktaráhugann.


Katrín Ásgrímsdóttir heillaðist af Hallormsstaðaskógi þegar hún starfaði þar í lok liðinnar aldar, en nú er hún drottningin í Kjarna. 

Hófu rekstur á Héraði

Sólskógar urðu til 1988 og þau byrjuðu á því að kaupa jörðina Lönguhlíð á Völlum á Héraði, en komust fljótt að því að sú jörð var ekki góð til ræktunar. Í framhaldinu fengu þau keypt land í gamla Vallahreppi, rétt innan við Egilsstaði.

„Við byrjum að byggja það upp 1993 og byggjum þar nýja gróðrarstöð,“ segir Katrín, en rifjar um leið upp að upphafið hafi þó eiginlega verið suður í Lóni. Áður en uppbyggingin hófst á Völlum, höfðu þau fengið að nýta smá svæði hjá foreldrum Katrínar í sumarbústaðarlandinu þeirra suður í Lóni. „Við fengum smá svæði þar, byrjuðum þar aðeins með smá reiti á meðan við vorum að koma okkur fyrir í Lönguhlíð.“

Uppbygging Sólskóga var síðan að Kaldá á Völlum næstu árin. Þar byggðu þau upp hús og ræktun, vissu að þarna var gott land sem hentaði til ræktunar, hallaði mátulega svo þar kæmu ekki frostpollar og sumrin austur á Héraði geta orðið gríðarlega góð.

Sólskógar rækta og selja 4-5 milljónir skógarplantna árlega. 

Tækifæri á Akureyri

Katrín og Gísli höfðu rekið Sólskóga í um 19 ár austur á Héraði þegar þeim bauðst tækifæri á Akureyri. Gróðrarstöðin í Kjarna hafði þá átt í erfiðleikum og var að lokum lýst gjaldþrota og þrotabúið auglýst til sölu. „Þá vorum við spennt að prófa, vildum komast inn á stærri markað,“ segir Katrín. Þau höfðu þó engin sérstök tengsl við Akureyri heldur sáu bara tækifæri til að komast inn á stærri markað. „Nei, engin tengsl. Við þekktum þannig séð ekkert til hér, áttum enga ættingja hér eða neitt. Við ætluðum alltaf að hafa þetta öfugt, að búa fyrir austan og vera með ræktun hér.“

Þegar þau hófu síðan rekstur í Kjarnaskógi kom veðurfarið þeim á óvart. „Já, það kom okkur á óvart. Við héldum að það væri svipað veðurfar þarna fyrir austan og hér fyrir norðan. En það er ekki, það er miklu snjóþyngra hérna en fyrir austan.“

Katrín segir gróðrarstöðina í Kjarna hafa verið í mjög slæmu ástandi þegar þau tóku við henni, mikil illgresi og húsin illa farin. „Það krafðist mikils að koma þessu í lag hérna. Þetta hafði smám saman verið að lognast út af.“

Reksturinn er stöðugur í dag, hátt í 15 starfsmenn að vetrinum og nálgast 30 yfir sumartímann og ræktaðar um 4-5 milljónir skógarplantna á ári, svo dæmi sé tekið. Þar er hægt að fá tré, runna og rósir, sumarblóm, matjurtir og krydd.

Fjárfesting rétt fyrir hrun

Eftir á að hyggja var árið 2007 ef til vill ekki besti tíminn til að fjárfesta og kaupa þrotabú gróðrarstöðvar sem krafðist mikilla framkvæmda og uppbyggingar, en þau sáu hrunið auðvitað ekki fyrir.

„Við vorum mjög bjartsýn og fórum að byggja 2.000 m2 gróðurhús. Við byrjuðum á því 2007 og erum að byggja það allt árið 2008 af því að það gekk svo hægt að fá leyfi hérna.“ Katrín segir að enda hafi komið í ljós að ekki hafi verið til neitt deiliskipulag. „Síðan verður hrunið og þá erum við ennþá að klára bygginguna og það var mikið stress að standa við allar greiðslur. En við náðum samt að koma húsinu í gagnið vorið 2009.“ Í framhaldi af fjármálahruninu varð einnig hrun í eftirspurn eftir plöntum, ríkið dró gríðarlega mikið saman í innkaupum, en það hafði verið aðalkaupandinn. „Við tókum næstu tíu ár í að borga niður skuldir og hafa hægt um okkur,“ segir Katrín um baráttu þeirra eftir hrun.

Hvað skilaði því helst að þið komust í gegnum þetta? Mikil eigin vinna, útsjónarsemi og sparnaður?

„Já, við tókum ekki mikil lán í kringum þetta og tókum engin erlend lán. Við vorum algjörlega skuldlaus þegar við komum að austan. Við höfðum alltaf framkvæmt eins og fjárhagsstaðan leyfði hverju sinni, þannig að við skulduðum nánast ekki neitt. Svo var þetta bara mikil vinna og okkur heppnaðist margt mjög vel. Það skiptir allra mestu máli að plönturnar séu í lagi og séu seljanlegar. Það voru útboð og mikil samkeppni á þessum árum. Okkur tókst að krækja í verkefni, ákváðum frekar að lækka verð heldur en að hætta og við urðum einhvern veginn ein af þeim fáu sem stóðu uppi.“

Kunnátta og útsjónarsemi skiptu sköpum

Skipti það sköpum fyrir ykkur að þið komið skuldlaus að austan þegar þið farið út í fjárfestingar hér og beint inn í hrunið?

„Fyrst og fremst er það bara kunnátta og útsjónarsemi sem eru lykilatriði í öllum fyrirtækjarekstri, hvort sem maður skuldar mikið eða lítið. Maður þarf alltaf að vera á tánum, sérstaklega þegar svona bakslag verður. Ég held að það sé bara svoleiðis.“

Þau Katrín og Gísli eru bæði menntuð frá Garðyrkjuskólanum eins og áður sagði. Katrín sér að miklu leyti um viðskiptahliðina á rekstri Sólskóga, án þessu þó að vera sérstaklega viðskiptamenntuð.

„Nei, ég er bara mikið sjálflærð í þessu. Reksturinn gengur mjög vel hjá okkur, það er vaxandi hagnaður og góð afkoma. Við höfum núna í nokkur ár fengið viðurkenningu hjá Creditinfo sem fyrirmyndarfyrirtæki þannig að við erum bara nokkuð ánægð með okkur.“