Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
08.08.2025 kl. 06:00

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 248. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.
Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar þessi mynd er tekin? Þekkir jafnvel einhver fólkið þótt ekki sjáist nema baksvipurinn?
Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Þetta er Landakirkja í Vestmannaeyjum, eins og fjölmargir lesendur áttuðu sig strax á. Bygging kirkjunnar hófst árið 1774 og lauk 1778, og er hún þriðja elsta steinkirkja hér á landi, á eftir Viðeyjarkirkju og dómkirkjunni á Hólum. Lítil forkirkja (anddyri), sem sést á myndinni, var reist við vesturdyr kirkjunnar árið 1903 og á árunum 1955 til 1959 var byggð sú forkirkja og turn sem einkenna kirkjuna í dag. Myndin er því tekin einhvern tíma fyrir 1955.