Fara í efni
Mannlíf

Fjölskyldan stór vinningur og „lífslokameðferð“ á verkstæðinu

Öll fjölskylda Óskars og Jónínu eiginkonu hans, nema Erla Malen, elsta dóttir þeirra og maður hennar Mads Yde. Frá vinstri: Björn Elvar Óskarsson, Þórdís Gísladóttir, Óskar Nói, Óskar með Aldísi Evu, Jónína með Rakel Heiðu, Þorsteinn Máni og Tinna Dögg Sigurðardóttir, og fyrir framan þau Ísak Máni.

Óskar Pétursson fagnaði sjötugsafmæli sínu á jóladag. Þá birtist fyrsti hluti viðtals Akureyri.net við þennan lífsglaða söngvara og bifvélavirkja úr Skagafirði. Í dag er botninn sleginn í spjall Rakelar Hinriksdóttur við afmælisbarnið, með fjórðu greininni.

Óskar hélt nokkra tónleika í haust, í tilefni sjötugsafmælisins, í Miðgarði í Skagafirði, í Hofi á Akureyri, þar sem myndin er tekin, og í Hörpu í Reykjavík. Lengst til vinstri er Valmar Väljaots við flygilinn og Eyþór Ingi Jónsson er við hljómborðið fyrir framan Karlakórinn Heimi. Stefán Gíslason, mikill vinur Óskars og samstarfsmaður til áratuga, stjórnaði kórnum þarna í síðasta skipti því hann varð bráðkvaddur aðeins fáeinum dögum síðar. Ljósmynd: Daníel Starrason.

Á bílaverkstæði Óskars við Óseyri er hann stundum einn að bardúsa, en þó lang oftast með einhverja karla með sér. „Ég segi alltaf að ég sé með nokkra í svona lífslokameðferð,“ segir Óskar og glottir. „Þeir eru hættir að vinna og koma hingað til þess að stytta sér stundir.“ Þegar blaðamaður Akureyri.net heimsækir verkstæðið eru tveir herramenn á svæðinu ásamt Óskari, þeir Hólmar og Benni.

Óskar á góða vini hér og þar, og einn þeirra hefur tengingar við súkkulaðigerð. Þess vegna hefur verkstæðinu áskotnast ágætis lager af úreltum páskaeggjum og það er veisla á kaffistofunni. Umræðurnar eru líflegar og þetta er ábyggilega með þeim skemmtilegri lífslokameðferðum sem eru í boði á svæðinu.


Kaffihornið á verkstæðinu. Hólmar, Óskar og Benni. Mynd RH

„Ég er ekki neinn vélasérfræðingur, alls ekki,“ leiðréttir Óskar þegar blaðamaður heldur að hann sé vélahvíslari. „Þetta snýst eiginlega mest um að gera upp gamla bíla. Gera þá glæsilega!“ Óskar segist eiga talsvert umfram ráðlegan skammt af gömlum bílum og eins og áður kom fram, þá er hann líka með bílnúmerablæti. „Ég á A1, A22, A25, A44, svo fátt eitt sé nefnt.“ Núna er Óskar að gera upp ansi krúttlega Volkswagen bjöllu, sem hann fullyrðir að verði alveg eins og ný þegar hann hafi lokið sér af. Hann er svolítið eins og kátur krakki á jólunum þegar hann sýnir blaðamanni bjölluna. Talandi um jól, þá var sjötugsafmæli Óskars einmitt á jóladag eins og áður er getið.

Páskaegg í boði á kaffistofunni. Mynd RH

Er eitthvað vesen að eiga afmæli á jóladag?

„Nei nei, ég þekki svosem ekki neitt annað,“ segir Óskar léttur í bragði. „En það er auðvitað oft eitthvað sem truflar afmælisdaginn. Nóg er nú samt af fólki í kring um mig. En það er þá kannski frekar út af jólaboðum.“ Óskar viðurkennir að hann hafi síðastliðin ár farið að nöldra smávegis yfir því að enginn muni eftir afmælinu sínu vegna þess að alltaf sé verið að skipuleggja jólaboð. „Það endaði með því að það fóru að streyma til mín pakkar í jólaboðum, eitthvað hafði þetta kvisast út. Þá sá ég eiginlega svolítið eftir því að hafa verið að nöldra þetta. Ég skaut mig eiginlega í fótinn vegna þess að það kom á daginn að mér leiddist athyglin!“

Það eru fleiri stórhátíðarbörn í Álftagerðisfjölskyldunni. Elsti bróðir Óskars var fæddur á nýársdag og næst elsti bróðirinn var fæddur á föstudaginn langa. „Hann var fæddur 23. apríl og daginn hefur borið upp á allskonar hátíðir. Sumardaginn fyrsta, föstudaginn langa og páskadag, sem dæmi. Þetta er spennandi dagsetning.“

„Ég treysti því nú reyndar að fólk verði í einhverjum jólaboðum á afmælisdaginn svo ég fái einhvern frið.“

Erla Malen, elsta barn Óskars og Jónínu, eiginmaður hennar, Mads Yde, og synirnir Óskar Nói og Ísak Máni.

Þorsteinn Máni Óskarsson, yngsta barn Óskars og Jónínu, og kona hans, Tinna Dögg Sigurðardóttir.

„Ég er náttúrlega búinn að halda afmælistónleikana mína, sem voru eiginlega aðal partíið,“ sagði Óskar fyrir jól, spurður um hvað hann ætlaði að gera til hátíðarbrigða á afmælinu í ár. „Svo ætla ég bara að reyna að vera góður gæi um jólin. Njóta þess að vera til.“ Hann sagðist ekki ætla að halda neina veislu en þeir sem kæmu í heimsókn fengju náttúrlega kaffi.

„Ég treysti því nú reyndar að fólk verði í einhverjum jólaboðum á afmælisdaginn svo ég fái einhvern frið,“ sagði Óskar þegar blaðamaður ræddi við hann fyrir jól, og staðfestir núna að hann hafi að mestu fengið frið!

Óskar hélt upp á daginn í faðmi fjölskyldunnar, en þau hjónin eiga þrjú börn og fjögur barnabörn.„Yngsti sonur minn á hund, þannig að það er ekkert síður. Ekki má gleyma honum!“ segir Óskar. „Þetta lið er allt í þokkalegu lagi, þannig að ég get ekki verið annað en þakklátur og glaður á þessum tímamótum,“ segir afmælisbarnið og bætir við: „Ég er þokkalega brattur!“

Óskar mátar nýjasta verkefnið á verkstæði sínu, litla rauða „bjöllu“ sem má muna fífil sinn fegurri. Mynd: RH.

Vann í fjölskylduhappdrættinu

Óskar var spurður í öðrum hluta viðtalsins hvað væri eftirminnilegast þegar horft væri til baka á tímamótunum og svaraði þá: „Það var náttúrlega rosalega sérstakt að eignast þessa krakkaorma.  Vera allt í einu kominn með einhverjar eftirprentanir. Það var stórfurðulegt. Mér fannst það vera töluvert álag, þó að það bitnaði náttúrlega minnst á mér.“

Elsta barn Óskars og Jónínu eiginkonu hans er Erla Malen sem býr í Danmörku og starfar sem sérkennari. Maður hennar er Mads Yde og þau eiga synina Óskar Nóa og Ísak Mána.

Miðjubarnið er sonurinn Björn Elvar, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður á Akureyri. Kona hans er Þórdís Gísladóttir og þau eiga tvær dætur, Rakel Heiðu og Aldísi Evu.

Yngsta barn Óskars og Jónínu er sonurinn Þorsteinn Máni. Hann er sjúkraþjálfari og býr í „borg óttans“ eins og Óskar orðar það og á við höfuðborg lýðveldisins. Kona Þorsteins Mána er Tinna Dögg Sigurðardóttir.

Óskar er afskaplega ánægður og stoltur af fjölskyldu sinni og fer ekki leynt með það, enda engin ástæða til: „Ég vann stóra vinninginn í fjölskylduhappdrættinu. Það er heilagur sannleikur,“ segir hann. „Ég hefði ekki getað orðið heppnari, hvorki með eiginkonu né börn. “

Öll fjölskylda Óskars og Jónínu eiginkonu hans, nema Erla Malen, elsta dóttir þeirra og maður hennar Mads Yde. Frá vinstri: Björn Elvar Óskarsson, Þórdís Gísladóttir, Óskar Nói, Óskar með Aldísi Evu, Jónína með Rakel Heiðu, Þorsteinn Máni og Tinna Dögg Sigurðardóttir, og fyrir framan þau Ísak Máni.

Á afmælistónleikunum í Hofi um daginn; ný og yngri útgáfa Álftagerðisbræðra. Frá vinstri: Óskar Pétursson, Jóel Agnarsson (Gíslasonar Péturssonar), Pétur Pétursson, Agnar Gíslason (Péturssonar), Ísak Agnarsson (Gíslasonar Péturssonar), Gísli Pétursson og Atli Gunnar Arnórssonar, tengdasonur Gísla. Ljósmynd: Daníel Starrason. 

Þórdís Gísladóttir og Björn Elvar Óskarsson ásamt dætrunum Rakel Heiðu, til vinstri, og Aldísi Evu.

Óskar og Guðrún Gunnarsdóttir á afmælistónleikunum í Hofi í haust. Ljósmynd: Daníel Starrason

Óskar og Ívar Helgason á afmælistónleikunum í Hofi. Ljósmynd: Daníel Starrason.

Fjörið í algleymingi á afmælistónleikunum í Hofi. Ljósmynd: Daníel Starrason