Fara í efni
Mannlíf

Ekkert merkilegra að vera söngvari en eitthvað annað

Óskar segist kunna illa við myndatökur og gjarnan myndast illa. Það ber ekki á því hér. Mynd RH

Óskar Pétursson söngvarinn ástsæli úr Skagafirði varð sjötugur á jóladag. Fyrsti hluti hátíðarviðtals Akureyri.net við hann birtist þá, annar hluti í gær hér er þriðji hluti viðtalsins. Sá fjórði og síðasti birtist á morgun.

Þegar Óskar flutti til Akureyrar 1972 gekk hann til liðs við Karlakór Akureyrar. „Þá hafði ég nú ekkert verið að syngja fyrir fólk nema kannski á klósettinu í Miðgarði á böllum og svona,“ segir Óskar og hlær. Strax var Óskar beðinn um að syngja einsöng með kórnum, en þvertekur fyrir það að hafa boðið sig fram í verkið. „Nei, nei, nei, ég hefði nú aldrei farið að trana mér fram í það,“ segir Óskar. Hann hefur á orði að honum hafi aldrei fundist það sérstaklega merkilegt að vera söngvari, ekkert merkilegra en eitthvað annað. „Ef menn kunna ekki að syngja þá kunna þeir bara eitthvað annað.“

Stefán heitinn Gíslason, sem lést í haust, var mikill vinur og sálufélagi Óskars í tónlistinni. Myndin er tekin við heimili Óskars og Jónínu konu hans á Akureyri árið 2013 þegar Stefán fékk að prufukeyra Volkswagen Bjöllu sem Óskar hafði nýlokið við að gera upp. Ljósmynd: Björn Jóhann

„Karlakór Reykjavíkur var í hávegum hafður heima í Álftagerði, en þar var helst rætt um söng og hesta við eldhúsborðið.“

„Við bjuggum í örfá ár í Reykjavík þegar ég var um þrítugt. Þá fór ég Karlakór Reykjavíkur,“ rifjar Óskar upp. „Sá kór var í hávegum hafður heima í Álftagerði, en þar var helst rætt um söng og hesta við eldhúsborðið. Það var stór stund fyrir mig þegar við fórum í söngferð til Skagafjarðar með þessum kór, og ég söng einsöng með þeim á sviðinu í Miðgarði. Pabbi gamli var í salnum og það var ansi gaman.“

Er stressandi að syngja fyrir fólk?

„Ég man eftir einu skipti, þar sem ég átti að syngja í útvarpsupptöku,“ rifjar Óskar upp, frá Reykjavíkurárunum. „Ég var svo stressaður, að ég fann hjartsláttinn alla leið upp í tunguna á mér! Ég var svo hálf meðvitundarlaus þegar ég hlustaði á þetta, þannig að ég man ekkert hvort það heyrðist á upptökunni hvað ég var stressaður.“ Talandi um stress, þá segist Óskar yfirleitt ekki finna fyrir sviðsskrekk. „Það var kannski helst þarna fyrst, ef ég kunni ekki nógu vel það sem stóð til. En í dag get ég alveg verið með þúsund fyrir framan mig og það skiptir engu.“

Ég var svo hálf meðvitundarlaus þegar ég hlustaði á þetta, þannig að ég man ekkert hvort það heyrðist á upptökunni hvað ég var stressaður.“

Veislustjórnun á undanhaldi

„Ég er eiginlega að reyna að hætta því, að taka að mér veislustjórnun,“ segir Óskar. „Þar gat ég nefnilega alveg orðið stressaður. Hugsaði kannski að öllum myndi finnast þetta leiðinlegt og að ég væri ekki nógu vel undirbúinn.“ Óskar tekur fram að það hafi líka ýmislegt breyst í þessum giggum. „Þetta er orðið miklu vandasamara. Hérna áður fyrr, mátti maður alveg vera svolítið kaldur. Láta allt flakka. En í dag þá tek ég það alvarlega að ritskoða sjálfan mig, enda finnst mér ekki að fólk eigi að fá að vaða uppi með dónaskap lengur.

„Jú, blessuð vertu, oft!“ svarar Óskar spurður hvort hann hafi nokkurn tíma fengið ákúrur fyrir dónaskap við veislustjórn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Óskar hugsar sig um þegar blaðamaður forvitnast um það hvort að hann hafi nokkurn tíman fengið ákúrur fyrir dónaskap við veislustjórn. „Jú, blessuð vertu, oft! Ég get til dæmis sagt frá því þegar ég var að skemmta á þorrablóti í sveit hérna nærri. Ég spurði eina ágæta konu í nefndinni hvort ég mætti snúa upp á hana sögu, gaf henni meira að segja dæmi um það sem ég ætlaði að segja.“ Óskar segir að hún hafi verið ánægð með þetta og haldið að þetta myndi slá í gegn. „Þarna fannst mér ég aldeilis vera með þetta. En eftir helgina hitti ég sóknarprestinn í Nettó og hann tók mig út í horn og lét mig heyra það fyrir þessa sögu.“ Óskar hlær nú að þessu og tekur fram að hann sé þeirrar skoðunar að hann sé búinn að skila sínu á þessu sviði. „Ég vil frekar einbeita mér að því að vera til. Þarna var ég oft á tíðum verulega kvíðinn, í tengslum við þessi verkefni. Þá á maður ekkert að vera í þessu.“

Aðdáendur frásagnarlistar Óskars þurfa þó ekki mikið að örvænta, hann hefur á orði að það sé nú alveg óhætt að skella í eina og eina litla sögu á milli laga á tónleikum. „Það er allt annað heldur en að þurfa að vera fyndinn heila kvöldstund. Mér fannst ég líka vera farinn að endurtaka mig og segja sömu sögurnar.“

Óskar á æfingu með Karlakórnum Heimi í Skagafirði í haust undir stjórn Stefáns Gíslasonar. Stefán stjórnaði kórnum hinsta sinni á afmælistónleikum Óskars í Hofi í október. Hann varð bráðkvaddur fáeinum dögum síðar. Ljósmyndir: Hjalti Árnason

Það er forvitnilegt, að spyrja söngvara sem titra hálfpartinn af tilfinningu þegar þeir syngja, hver séu uppáhalds lögin þeirra. Eru einhver lög sem snerta alltaf einhverja strengi, sama hversu oft þau eru sungin? „Fyrir mig, eru það Rósin og Draumalandið. Af þessum ljúfu lögum,“ segir Óskar. „Ég hef svo alltaf mjög gaman af því að syngja Hamraborgina! Koma mér alveg út á blábrún, þar sem ég er alveg að missa meðvitund! Orðinn helblár í framan. Það er sko gaman!“

„Til dæmis, söng ég yfir Stefáni,“ segir Óskar. „Það var veruleg brekka. Þá fór reynslan og allt það, bara út í veður og vind.“

„Það er eitthvað í þessum lögum,“ segir Óskar. „Ég nýt þess að syngja þau í hvert skipti. Þetta er eins og að horfa upp í himininn - þú sérð alltaf eitthvað nýtt. Svo hef ég sungið sum lög við jarðarfarir vina minna eða fjölskyldumeðlima og þá tengi ég þangað. Það sest einhvernvegin í mann.“ Óskar segir að oft sé erfitt að syngja við jarðarfarir nákominna. „Ég hef aldrei þurft að hætta í lagi, en það hefur staðið mjög tæpt.“ Söngstjóri Karlakórsins Heimis og stjórnandi Álftagerðisbræðra frá upphafi, Stefán Gíslason, varð bráðkvaddur í október síðastliðnum. Hann var mikill vinur og sálufélagi Óskars í tónlistinni. „Til dæmis, söng ég yfir Stefáni,“ segir Óskar. „Það var veruleg brekka. Þá fór reynslan og allt það, bara út í veður og vind.“

„Ég hirði sálmaskrárnar úr öllum jarðarförum sem ég syng við, sem einhvers konar bókhald. En það eru orðnir svo margir stútfullir pappakassar af þessu, að ég treysti mér ekki til þess að telja þetta.“

Það er ekki alltaf eins sorglegt að syngja yfir fólki, sem betur fer. „Einhverjir gamlingjar, sem ég hef þekkt alla tíð og þykir vænt um, sem hafa kannski verið að steindrepast alla daga úr verkjum,“ segir Óskar. „Þeim samgleðst ég bara, að vera lausir við þetta líf!“

Óskar syngur mikið við jarðarfarir, en gróf talning gefur vísbendingu um að þær gætu verið um fjögur þúsund. „Ég hirði sálmaskrárnar úr öllum jarðarförum sem ég syng við, sem einhvers konar bókhald. En það eru orðnir svo margir stútfullir pappakassar af þessu, að ég treysti mér ekki til þess að telja þetta.“ Óskar segir að jarðarfarir séu eiginlega uppáhalds verkefnin sín. „Maður gerir eins vel og maður getur, fólk biður mann að koma og ég finn að þegar vel tekst til að það skilur mikið eftir sig. Það er dýrmætt.“

„Mér leiðist þegar fólk lítur stórt á sig. Ég er bara í gúmmístígvélunum mínum í Nettó.“

„Ég hef aldrei álitið mig neinn listamann. Ég er bara lítið lærður raulari,“ segir Óskar. „Mér leiðist þegar fólk lítur stórt á sig. Ég er bara í gúmmístígvélunum mínum í Nettó.“ Hvort að hógværðinni sé ekki heldur hátt undir höfuð gert hér, er álitamál. Blaðamaður myndi seint kalla Óskar raulara, en það er ekki hún sem situr fyrir svörum. Það fer í það minnsta ekki mikið fyrir útbelgdu egói hjá Óskari Péturssyni. Hann hellir reyndar upp á skrambi gott kaffi og viðurkennir það fúslega.

Álftagerðisbræður á tónleikum í Hörpu árið 2019. Stefán Gíslason við flygilinn. Ljósmynd: Eggert Jóhannsson 

Hvað er skemmtilegast að gera í tónlistinni?

„Það er það sem við bræður vorum að gera. Þegar við vorum að syngja svona fjórir saman,“ segir Óskar. „Ég syng mikið með Ívari Helgasyni núna. Hann er mjög músíkalskur og raddirnar okkar falla ágætlega saman. Að leika sér í kring um þetta, radda og harmonera - það er sko gaman! Þá erum við bara að njóta okkar.“

Óskar nefnir einnig til leiks Eyþór Inga Jónsson og Valmar Väljaots, organistana tvo, sem skemmtilega vitorðsmenn í tónlist. „Þarna líður mér alveg dæmalaust vel, við vitum allir hvað hinn er að hugsa. Eyþór, til dæmis, þarf ekki annað en að líta á mig og þá veit hann alveg nákvæmlega hvort hann þarf að hækka eða lækka eða hvað.“

„En þó að við sæjum ekki hvorn annan - þá vissum við nákvæmlega hvað hinn var að hugsa. Þegar sambandið er orðið svona, þá er þetta sko gaman.“

Áðurnefndur Stefán Gíslason heitinn var einn af allra uppáhalds meðleikurum Óskars til fjöldamargra ára. „Síðustu tónleikarnir hans Stefáns voru afmælistónleikarnir mínir í Hofi í október. Þá stóð ég fyrir aftan hann, að syngja einsöng,“ rifjar Óskar upp. „Þetta fannst mönnum skrítið, að stjórnandinn væri aftan við mig. En þó að við sæjum ekki hvorn annan - þá vissum við nákvæmlega hvað hinn var að hugsa. Þegar sambandið er orðið svona, þá er þetta sko gaman.“ Óskar segist enn búa að þessari tengingu við Stefán, þrátt fyrir að vinur hans sé farinn. Þeir eru ennþá saman í tónlistinni.

„Það er þetta flæði. Þegar ég finn þetta traust og þennan léttleika í samspili eða samsöng með öðrum og gleymi mér alveg. Það er skemmtilegast.“