Fara í efni
Mannlíf

Óskar 70 ára: Röddin að skána ef eitthvað er!

Óskar Pétursson á bílaverkstæðinu sínu við Óseyri. Nýjasta verkefnið, forláta bjalla, sést í bakgrunni Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Óskar Pétursson heldur upp á sjötugsafmæli sitt í dag – jóladag. Blaðamaður Akureyri.net heimsótti söngvarann lífsglaða tvisvar sinnum í desember til þess að safna í tímamótaviðtal, annars vegar á fallegt heimili Óskars við Munkaþverárstræti og hins vegar á bifvélaverkstæðið við Óseyri, sem er líka fallegt, en á annan hátt. Blái samfestingurinn fer drengnum vel, en hann sver fyrir það að vera ekki í jakkafötunum undir honum, þrátt fyrir að eiga að syngja í jarðarför eftir hádegi. „Ég fer að sjálfsögðu fyrst heim í sturtu! Get nú ekki boðið fólki upp á annað!“ 

  • Viðtalið við Óskar birtist í fjórum hlutum; sá fyrsti í dag, næsti á morgun, þriðji hluti miðvikudaginn 27. desember og sá síðasti fimmtudaginn 28. desember. 

Hann er ekki síður á heimavelli hérna, olíublettaður með ToyStory derhúfuna, heldur en í sparifötunum að syngja Rósina eða Hamraborgina.

Venjulegur dagur hjá Óskari fer að mestu leyti fram á bifvélaverkstæðinu, en hann hefur sérstakt blæti fyrir fornbílum. Sjötugsverkefnið er forláta Volkswagen Bjalla sem hefur sennilega einu sinni verið rauð. Hún er ekki sérlega rennileg eins og staðan er, þar sem hún svífur dekkjalaus á verkstæðinu hans Óskars. „Hún verður alveg glæsileg þessi, þegar ég hef lokið mér af!“ segir Óskar stoltur. Hann er ekki síður á heimavelli hérna, olíublettaður með ToyStory derhúfuna, heldur en í sparifötunum að syngja Rósina eða Hamraborgina. „Líf mitt er frekar einhæft. Ég vinn, syng og er heima hjá mér,“ segir Óskar. „Ég er ekkert félagsmálatröll, mér þykir skemmtilegast að syngja og gera upp bíla og líður best í því.“

Óskar syngur ekki á verkstæðinu. Vélin í bjöllunni mun þó vonandi syngja fyrr eða síðar.

Syngur hvorki á verkstæðinu né í sturtu

„Ég syng ekki á verkstæðinu,“ segir Óskar þegar blaðamaður gerist forvitin um það hvort að söngurinn dreifi sér um fleiri vígstöðvar tilverunnar. „Og ég er alls ekki sturtusöngvari. Reyndar er það nú ótrúlegt hvað röddin helst góð allan þennan tíma hjá mér, miðað við hvað ég eyði miklum tíma hérna í rykinu og drullunni sem fylgir þessum bílum.“ Óskar vill meina að það séu örugglega genunum að þakka hvað röddin helst vel. „Ef eitthvað er þá er hún að skána! Það vilja sumir meina sem eru í kring um mig, kannski eru það bara þeir sem eru orðnir heyrnarlausir.“ Óskar hlær og bætir við: „Er á meðan er. Kannski, einn góðan veðurdag, opna ég munninn og það ískrar bara eitthvað í mér!“

„Ég var yngstur og það var oft svolítið erfitt. Fyrir mig, það er að segja.“

Hvernig barn varstu?

Óskar starir á sturlaðan blaðamanninn og hefur á orði að heldur séu þetta djúpar spurningar. „Ja, ég var svolítið fjörugur,“ segir hann eftir svolitla umhugsun. „Ég var yngstur og það var oft svolítið erfitt. Fyrir mig, það er að segja.“

Óskar á fimm systkini, bræðurna Ólaf, Sigfús, Pétur og Gísla og systurina Herdísi. Ólafur lést árið 2012. „Annars var ég ekki mikið lamb í skóla. Ég fékk stöku sinnum skammir en ekki oft!“ Óskar er alinn upp í Álftagerði í Skagafirði, og gekk því í Varmahlíðarskóla. „Fyrst var skólinn á hótelinu í Varmahlíð, svo í íbúðarhúsi sem heitir Laugabrekka. Það var mjög þröngt um okkur, þangað til skólinn var færður upp í Miðgarð.“

Álftagerðisbræður á tónleikum í Glerárkirkju um aldamótin. Frá vinstri: Sigfús, Óskar, Pétur og Gísli. 

„Eldri bræður mínir notuðu okkur yngri bræðurna til þess að uppfylla skuldbindingar sínar sem sjálfboðaliðar hjá Ungmennafélaginu.“

Á þessum tíma var skólahald þannig að krakkarnir voru í hálfan mánuð í skólanum og svo hálfan mánuð heima. „Það var dásamlegt!“ segir Óskar. „Frívikurnar mínar fóru reyndar yfirleitt í það að skafa timbur í Miðgarði, þannig að ég fór nú ekki langt. Það var verið að byggja húsið. Eldri bræður mínir notuðu okkur yngri bræðurna til þess að uppfylla skuldbindingar sínar sem sjálfboðaliðar hjá Ungmennafélaginu.“ Óskar minnist þessa með hlýju, þrátt fyrir að sagan beri keim af þrælahaldi. „Ég man að þeir fengu sérstakt hrós fyrir að hafa skilað mörgum dagsverkum þarna í Miðgarði,“ bætir Óskar við kíminn.

„Einhvern tíman var próf í bókfærslu og það gerðist frægt, hvernig ég tæklaði það vandamál.“

Úrræðagóður unglingur

Þegar Óskar var kominn í Iðnskólann viðurkennir hann að hafa mögulega haft forgangsröðina svolítið óskýra á köflum. „Ég var ekkert of spenntur fyrir náminu, það voru aðrir hlutir sem heilluðu meira. Það gat komið mér í koll þegar ég þurfti að mæta til prófs. Einhvern tímann var próf í bókfærslu og það gerðist frægt, hvernig ég tæklaði það vandamál. Ég tók til bragðs að láta peninga fylgja prófinu, sem dugðu fyrir bókhaldsskekkjunni sem mér tókst ekki að ráða fram úr. Það voru þrettán krónur.“

Óskar tekur það fram að hann hafi ekki fallið á prófinu. „Einu sinni fékk ég lánaðar teikningar hjá vini mínum sem var ári á undan í skólanum, til þess að meta til prófs. Hann var miklu betri að teikna en ég,“ rifjar Óskar upp. „Hann er held ég ennþá súr við mig, en ég fékk hærri einkunn en hann á prófinu!“

  • Á MORGUN Fékk kennslu á lífið frá afleitum fyrirmyndum eldri bræðrunum!