Fara í efni
Mannlíf

Færði Grímseyingum forláta skírnarfont

Valdimar Jóhannsson og skírnarfonturinn fallegi sem hann færði Grímseyingum að gjöf. Ljósmyndir: Valdimar Þengilsson

Valdimar Jóhannsson, 95 ára trésmiður og stofnandi trésmiðunnar Ýmis á Akureyri, kom í gær færandi hendi til Grímseyjar og gaf forláta skírnarfont til nýju Miðgarðakirkjunnar sem stefnt er að því að vígja næsta vor.

Valdimar hefur margsinnis komið til Grímseyjar í gegnum tíðina í tengslum við ýmis konar smíðaverkefni, segir á vef Akureyrarbæjar, „og honum varð mikið um þegar gamla kirkjan brann. Þá hófst hann þegar handa við að smíða nýjan skírnarfont fyrir kirkjuna. Þeirri vinnu lauk hann fyrir skemmstu og ákvað að færa Grímseyingum fontinn að gjöf í tilefni af 95 ára afmæli sínu sem var 30. september.“

Skírnafonturinn er smíðaður úr gegnheilli eik og er með skírnaskál úr pólýhúðuðu járni sem Ingi Hansen, vélvirki, smíðaði. Jón Geir Ágústson, tæknifræðingur, skar rósakant í fontinn og Þengill, sonur Valdimars, lakkaði og sá um frágang fontsins.

„Valdimar vinnur enn að smíðum þrátt fyrir að vera kominn á þennan aldur. Hann vinnur alla daga á verkstæðinu og dundar svo við önnur verkefni eins og þennan skírnarfont utan vinnutíma. Hann er ekki mikið fyrir að auglýsa þetta né önnur verk sem hann hefur unnið í gegnum tíðina en þessi skírnarfontur er sá ellefti á ferlinum og sá eini sem Valdimar hefur sjálfur gert teikninguna að. Hina tíu fontana hefur hann smíðað eftir teikningum annarra og þá er meðal annars að finna í Stærri-Árskógskirkju, Dalvíkurkirkju, Hríseyjarkirkju og Laufáskirkju.“

Hér er hægt að fylgjast með söfnun til Miðgarðakirkju á styrktarsíðu hennar 

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju:

  • Kennitala: 460269-2539
  • Reikningsnúmer: 565-04-250731