Fara í efni
Mannlíf

Eyrar-rokkað í fimmta skipti um helgina

Toy Machine að loknum útgáfu- og „lokatónleikum“ hljómsveitarinnar á Græna Hattinum 2022. Frá vinstri: Jens Ólafsson, Kristján Örnólfsson, Baldvin Zophoníasson, Gunnar Sigurbjörnsson hljóðmaður – „sjötti Bítillinn“ – Atli Hergeirsson og Árni Elliott. Hún mun þrátt fyrir „lokatónleika“ 2022 stíga á svið á Eyrarrokki. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Tónlistarhátíðin Eyrarrokk verður haldin í fimmta sinn á Akureyri um helgina og rokkunnendur eru löngu byrjaðir að telja niður dagana. Óhætt er að fullyrða að margra hljómsveita sem stíga á stokk að þessu sinni sé beðið með mikilli eftirvæntingu, enda seldust allir aðgöngumiðar upp strax í vor.

Það eru þeir Rögnvaldur gáfaði, Sumarliði Helgason frá Hvanndal og Helgi Gunnlaugsson á Vitanum sem eru prímusmótorarnir á bakvið hátíðina. Að þessu sinni koma fram tólf hljómsveitir og skiptast þær jafnt milli föstudags- og laugardagskvölds. Tónleikastaðurinn Verkstæðið er vettvangur fjörsins en Verkstæðið er einmitt til heimilis á sama stað og veitingastaðurinn Vitinn.


200 helgarpassar seldust upp strax í vor

Í boði voru 200 helgarpassar á hátíðina og seldust þeir upp á skömmum tíma, eftir að sala hófst í maí í vor. Enda ótrúlega glæsileg tónlistarveisla sem boðið verður upp á þetta árið... og þau fyrri voru þó ekkert slor! Þau sem misstu af miða á Eyrarrokkið eiga hugsanlega mögulega örlitla möguleika á að næla sér í miða áður en hátíðin hefst, því breyttar aðstæður hjá einhverjum miðahöfum gera það að verkum að miðar hafa verið boðnir til sölu á samfélagsmiðlum undanfarið. 

Hljómsveitirnar tólf koma úr ýmsum áttum en rokkið er þó mest áberandi. Um er að ræða bæði nýlegar og gamlar sveitir en kannski má segja að meirihluti þeirra hafi gert garðinn frægan á öldinni sem leið. Og verið misjafnlega mikið starfandi undanfarin ár og jafnvel áratugi. Þeir félagar sem standa að Eyrarrokki hafa nefnilega á undanförnum árum verið naskir á að þefa uppi löngu aflagðar hljómsveitir og sannfæra meðlimi þeirra um að kveikja á rykföllnum græjum og telja í.

Hljómsveitin Skriðjöklar fljótlega eftir að hún varð til laust fyrir miðjan níunda áratug aldarinnar sem leið.

Fornfrægar akureyrskar hljómsveitir áberandi

Sem dæmi má nefna Bleiku Bastana, sem vöknuðu til lífsins á Eyrarrokkshátíðinni í fyrra eftir ríflega 35 ára dvala, og stálu hreinlega senunni. Sviðsframkoma drengjanna var stórkostleg og Björn Baldvinsson söngvari - öðru nafni Bjössi Basti - var í þvílíkum ham á annarri löppinni með slitna hásin að annað eins hefur varla sést. Og Bastarnir voru það kátir með að hafa komið saman á ný að þeir eru mættir aftur á Eyrarrokk!

Fornfrægar akureyrskar hljómsveitir eru áberandi í ár. Hinir einu sönnu Skriðjöklar munu koma fram og verður spennandi að sjá hvort Logi Einarsson dansari lumi ekki á einhverjum glænýjum ráðherrasporum.

Toy Machine er önnur goðsagnakennd sveit frá Akureyri. Blómaskeið hennar var um og rétt fyrir síðustu aldamót og vakti hún m.a. athygli erlendis. Rokk og rapp í hæsta gæðaflokki.

200.000 naglbítar vöktu strax mikla athygli þegar þeir komu fyrst fram fyrir um 30 árum en piltarnir hafa haft frekar hægt um sig síðustu 15 árin eða svo. Frábær tónleikasveit og frábær tónlist.

Bleiku Bastarnir voru rosalegir á sviðinu í fyrra og Bjössi Basti þeyttist um á annarri löppinni. Mynd: Valur Sæmundsson.

Svörtu kaggarnir urðu líka til á síðustu öld en störfuðu ekki lengi og gáfu ekkert út af sinni tónlist. En eru mörgum eftirminnilegir! Þau fjölmörgu sem muna Kaggana og rokkað rokkabillíið þeirra eru hreinlega að farast úr spenningi yfir endurkomunni. Kristján Ingimarsson, sviðslistamaður í Danmörku og víðar, er bassaleikari og söngvari Kagganna. Það varð snemma ljóst að Kiddi er búinn meðfæddum sviðstöfrum og ekki á allra færi að fara frá því að mæma Abba-lög, „spilandi“ á badmintonspaða á bekkjarkvöldi í Lundarskóla, í það að sýna eigin leikverk af ýmsu tagi út um allan heim.

Brain Police er enn ein goðsagnakennda rokksveitin sem kemur fram á Eyrarrokki þetta árið. Sveitin var stofnuð rétt fyrir aldamótin, gaf út nokkrar plötur fyrir rúmum 20 árum en svo sögðust piltarnir vera hættir árið 2010. Þeir hafa þó komið saman af og til síðan þá og sannarlega forréttindi að fá tækifæri til að upplifa þá á sviði einu sinni enn.

Hljómsveitin 200.000 naglbítar á sviðinu í Hofi í nóvember 2017 þegar hluti tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves fór fram á Akureyri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

LOST þurfti að hætta við þátttöku á síðustu stundu

Hljómsveitin LOST frá Akureyri starfaði á níunda áratug síðustu aldar og er ein af mörgum hljómsveitum sem Rögnvaldur gáfaði og Kristján Pétur Sigurðsson hafa starfað saman í. LOST er í uppáhaldi hjá afskaplega mörgum tónlistarunnendum og það var því fagnaðarefni þegar sveitin kom saman á ný árið 2015, í tilefni af fimmtugsafmæli Rögnvaldar. Til allrar lukku voru viðtökurnar slíkar að hljómsveitin var formlega vakin úr dvala árið 2017, með nokkrum mannabreytingum. Sveitin hefur sent frá sér nýtt efni á undanförnum árum og nú síðast á þessu ári. Að margra áliti mættu strákarnir vera duglegri við tónleikahald, en það er auðvitað bara eigingirni! Því miður verðum við að bíða örlítið lengur eftir að sjá þá á tónleikum, því hljómsveitin þurfti að hætta við þátttöku í Eyrarrokkinu á síðustu stundu. En búið er að finna aðra hljómsveit til að hlaupa í skarðið og nafn hennar verður upplýst þegar hátíðin hefst.

Einhvern veginn tókst forsprökkum Eyrarrokks að sannfæra meðlimi Texas Jesús um að koma saman á ný - en sú hljómsveit hefur legið lengi í dvala. Formlegir lokatónleikar voru haldnir árið 1996 en sveitin kom reyndar saman aftur árið 2008. Texas Jesús hitaði upp fyrir Eyrarrokk með tónleikum í Reykjavík fyrr í vikunni og viðtökurnar voru vægast sagt stórfenglegar. Það verður tilhlökkunarefni fyrir þau 200 sem voru svo heppin að næla sér í helgarpassa á Eyrarrokkið að meðtaka og upplifa teiknimyndapönk Texas Jesús.

Hljómsveitin Skandall, sem keppti fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri, sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Mynd af vef MA.

Sú Ellen er enn ein gamalkunna hljómsveitin á hátíðinni. Austfirskt eðalpopp, sígilt síðan á níunda áratugnum. Sveitin hefur oft lagst í dvala en jafnoft risið upp úr honum aftur.

Jeff Who er kannski ekki alveg eins rosalega gömul hljómsveit og margar hinna en engu minna goðsagnakennd. Sveitin naut gríðarlegra vinsælda eftir að frumraun hennar kom út árið 2005 og lagið Barfly er löngu sígilt. Eftir útkomu annarrar plötunnar árið 2008 dró úr starfseminni en hljómsveitin hefur þó komið saman af og til síðan þá. Alltaf telst það til tíðinda þegar það gerist.

Ekki bara gamlir kallar!

Maus er enn ein hljómsveitin sem hóf störf á síðustu öld og hefur fyrir löngu unnið sér sess sem ein magnaðasta rokksveit Íslandssögunnar. Maus verður hins vegar ekki á Eyrarrokki! Birgir Örn Steinarsson, söngvari og gítarleikari Maus, hefur hins vegar undanfarin misseri unnið að sólóverkefnum undir nafninu Biggi Maus. Hann sendi frá sér plötu fyrr á þessu ári og kemur fram á sviði ásamt hljóðfæraleikurum sem Biggi Maus og MeMM. Og þennan hóp fá gestir Eyrarrokks að hlýða á. Biggi hefur löngu sannað sig sem einn slyngasti lagahöfundur landsins.

Ólíklegt er að nokkur stúlknanna í hljómsveitinni Skandal hafi verið fædd fyrir aldamót, á blómatíma flestra hinna hljómsveitanna sem koma fram á hátíðinni. Þær unnu nefnilega Söngkeppni framhaldsskólanna á síðasta ári, fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri. En þótt sveitin hafi ekki starfað nema í þrjú ár hafa stúlkurnar vakið verðskuldaða athygli og þær eiga eftir að falla vel inn í fjölbreytta og þétta dagskrá Eyrarrokks 2025.

Dagskrá Eyrarrokks 2025

FÖSTUDAGUR 3. október

  • Ónefnd hljómsveit sem hleypur í skarðið fyrir LOST; ekki verður greint frá því fyrr en í kvöld um hvaða sveit er að ræða.
  • Biggi Maus og Memm
  • Toy Machine
  • Bleiku bastarnir
  • 200.000 naglbítar
  • Skriðjöklar

LAUGARDAGUR 4. október

  • Texas Jésús
  • Skandall
  • Svörtu kaggarnir
  • SúEllen
  • Jeff Who
  • Brain Police