Fara í efni
Mannlíf

Bjallan úr Harðbak „einstakur dýrgripur“

Kristján Vilhelmsson með skipsbjölluna úr Harðbak sem er honum mjög kær. Faðir hans, Vilhelm Þorsteinsson, var skipstjóri á Harðbak á sínum tíma og notaði því bjölluna. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Í umfjöllun Akureyri.net í vikunni um smíði á skipslíkani af Sléttbak EA 304 og Svalbak EA 302 mátti sjá á myndum forláta skipsbjöllu merkta Harðbak 1950 á fallegum tréfæti og með fjörugrjót frá Dalvík og kríu sitjandi á grjótinu.

Sagan á bak við þennan grip er rakin á heimasíðu Samherja. Hér er um að ræða skipsbjölluna úr Harðbaki EA 3 sem nú er komin til varðveislu á Akureyri 44 árum eftir að skipið var selt í brotajárn.

Í fréttinni á vef Samherja segir meðal annars:

Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja fékk í fyrra óvænta heimsókn. Gesturinn tjáði Kristjáni að hann væri með skipsbjöllu Harðbaks, sem hann taldi að best væri varðveitt hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Með öðrum orðum, það fór ekki allt í brotajárn eins og álitið hafði verið, festiboginn fylgdi meira að segja bjöllunni góðu.

„Þetta er einstakur dýrgripur í mínum huga og afskaplega ánægjulegt að skipsbjallan sé komin til varðveislu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Þökk sé þeim sem björguðu verðmætum áður en Harðbakur fór í brotajárn. Ekki síðri þakkir vil ég færa öllu því hagleiksfólki sem kom að gerð þessa einstaka listaverks sem nú er tilbúið,“ segir Kristján Vilhelmsson.

Feðgarnir Valdimar Jóhannsson og Þengill Valdimarsson á trésmiðjunni Ými.

Kristján eignaðist sem sagt bjölluna og er hún honum mjög kær. Vilhelm, faðir hans, sem síðar varð annar forstjóra Útgerðarfélags Akureyringa, var lengi skipstjóri á Harðbak og notaði þessa bjöllu. Kristján mun sjálfur hafa farið með honum einhverja túra sem gutti, eins og tíðkaðist á þeim tíma og man því vel eftir bjöllunni.

Feðgarnir á trésmiðjunni Ými, Valdimars Jóhannssonar og Þengils Valdimarssonar, komu upp í huga Kristjáns og leitaði hann til þeirra með ósk um að smíða fót undir bjölluna og festibogann. Um það segir í frétt Samherja:

Þengill Valdimarsson segir að faðir hans, Valdimar, og Kristján eigi allan heiðurinn að verkinu. Valdimar, sem er 96 ára gamall, segir að verkefnið hafi verið afskaplega ánægjulegt og gefandi.

„Já, já, ég er sáttur við útkomuna en vinnan var á köflum nokkuð snúin því bjallan og boginn eru samtals um 40 kíló. Það fór töluverður tími í þetta en þannig er það með alla hluti sem ætlað er að endast um ókomna framtíð. Það er aðallega Kristján Vilhelmsson sem á heiðurinn af þessu. Ég kom bara með hugmyndina og hafði umsjón með smíðinni, það er allt annað mál.“

Segja má að bjallan sé komin heim og verður henni fyrst um sinn komið fyrir í húsakynnum ÚA við Fiskitanga. Kristján segir eðlilegast að hafa þetta glæsilega listaverk sem næst starfsfólki ÚA og því verði komið fyrir á góðum stað í fiskvinnsluhúsinu. 


Listaverkið tók sig vel út framan við fiskvinnluhús ÚA. Mynd: Samherji.is.