Fara í efni
Mannlíf

Afturelding fór illa með KA í öruggum sigri

Einar Rafn Eiðsson hefur verið lengi frá eftir að hann gekkst undir aðgerð en var óvænt með í kvöld. Hér sækir hann að frábærri vörn Aftureldingar. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Eftir fimm sigurleiki í röð á heimavelli þurftu KA-menn loks að játa sig sigraða þegar þeir fengu Aftureldingu í heimsókn í 14. umferð Olísdeildar karla í handbolta. Eftir jafnan fyrri hálfleik skelltu gestirnir í lás og náðu góðu forskoti í upphafi þess seinni, sem KA náði aldrei að vinna upp. Lokatölur 28:22 Aftureldingu í vil.

Afturelding var ívið sterkara liðið fyrir hlé, yfirleitt á undan að skora og náðu mest þriggja marka forskoti. KA vann það forskot upp en gestirnir leiddu í leikhléi með einu marki, 11:10. KA-liðið náði ekki vel saman í fyrri hálfleik, lykilmenn voru ólíkir sjálfum sér og liðið gat þakkað Bruno markverði fyrir að vera ennþá inni í leiknum. Giorgi Dikhaminjia var eini leikmaður liðsins sem skoraði fleiri en eitt mark fyrir hlé og raunar var það ekki fyrr en eftir 48 mínútur að annar leikmaður en Giorgi skoraði sitt annað mark.

Bruno Bernat markvörður KA, til vinstri,  lék mjög vel í kvöld en Einar Baldvin Baldvinsson, starfsbróðir hans í liði gestanna enn betur auk þess sem samherjar hans stóðu sig mun betur en liðsfélagar Brunos. 

KA skoraði ekki mark fyrstu 13 mínútur seinni hálfleiks

Hafi KA-liðið verið ólíkt sjálfu sér fyrir hlé þá var það þó lítilfjörlegt bakslag miðað við fyrripartinn í seinni hálfleik. KA átti engin svör við varnarleik og markvörslu Aftureldingar og fyrstu 13 mínúturnar í seinni hálfleik gekk ekkert upp. Andri Snær þjálfari tók tvívegis leikhlé á þessum tíma án þess að nokkuð lagaðist en fyrsta mark KA í seinni hálfleik kom ekki fyrr en eftir 13 mínútna leik. Afturelding hafði þá skorað fyrstu sjö mörk hálfleiksins og aukið forskotið í 18:10. Og þó að KA-liðið tæki aðeins við sér varð munurinn aldrei minni en 4 mörk. Afturelding vann að lokum öruggan sex marka sigur, 28:22.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, lengst til hægri, hefur verið frábær með KA í vetur en náði sér engan vegan á strik í kvöld og sat nær allan seinni hálfleikinn á bekk varamanna. Morten Linder, lengst til vinstri, var einnig heillum horfinn.

Lykilmenn heillum horfnir en Einar Rafn átti óvænta endurkomu

Eins og áður sagði var KA-liðið mjög ólíkt sjálfu sér í þessum leik og átti fá svör við frábærum varnarleik gestanna og árangursríkum sóknarleik þeirra. Lykilmenn á borð við Bjarna Ófeig Valdimarsson og Morten Linder voru heillum horfnir. Linder byrjaði á að láta verja frá sér víti og náði ekki skoti á mark eftir það. Bjarni Ófeigur skoraði eitt mark úr níu skotum og mörg þeirra voru ansi ótímabær. Þeir félagarnir sátu á bekknum megnið af seinni hálfleik og Einar Rafn Eiðsson, sem var óvænt í liði KA í kvöld, fékk eflaust fleiri mínútur en hann bjóst við. Einar Rafn er búinn að vera lengi frá eftir að hafa gengist undir aðgerð og ekki var reiknað með honum inn á völlinn fyrr en eftir áramót. Hann varð næstmarkahæstur KA-manna, á eftir Giorgi Dikhaminjia og Bruno Bernat stóð fyrir sínu í markinu.

Einar Baldvin Baldvinsson var frábær í marki Aftureldingar, með 50% markvörslu. Sömuleiðis var vörnin mögnuð lengst af og þeir þrír menn sem skoruðu 24 af 28 mörkum liðsins þurftu aðeins 27 skot til þess.

Úrslitin þýða að KA fellur niður í fimmta sætið í deildinni en Afturelding er ennþá í þriðja sæti. Næsti leikur KA er heimaleikur gegn HK, næstkomandi mánudagskvöld.

Færeyringurinn Sveinur Olafsson gerði 8 mörk fyrir Aftureldingu í kvöld. Hann fór á kostum í sókninni seinni hluta leiksins og gerði sex af síðustu sjö mörkum liðsins.

Mörk KA: Giorgi Dikhaminjia 7, Einar Rafn Eiðsson 4 (þar af 2 víti), Arnór Ísak Haddsson 3, Einar Birgir Stefánsson 2, Patrekur Stefánsson 2, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1, Daði Jónsson 1, Logi Gautason 1, Magnús Dagur Jónatansson 1.

Varin skot skv. HBStatz: Bruno Bernat 17, Guðmundur Helgi Imsland 0.

Mörk Aftureldingar: Ihor Kopyshynskyi 9 (þar af 5 víti), Sveinur Olafsson 8, Kristján Ottó Hjálmsson 7, Ævar Smári Gunnarsson 2, Árni Bragi Eyjólfsson 1, Harri Halldórsson 1.

Varin skot skv. HBStatz: Einar Baldvin Baldvinsson 19 (þar af 1 víti), Sigurjón Bragi Atlason 1.

Öll tölfræðin frá HBStatz

Staðan í deildinni