Viðburðarík íþróttavika eins og flestar aðrar
Íþróttavikan verður viðburðarík eins og flestar aðrar vikur ársins hjá Akureyrarliðunum. Íshokkíliðin eiga bæði úti- og heimaleiki, tveir heimaleikir í handbolta og einn útileikur, tveir heimaleikir í körfubolta og útileikur í blaki. Eitthvað við að vera hjá íþróttaáhugafólki nánast alla daga vikunnar.
Góða skemmtun!
ÞRIÐJUDAGUR 11. NÓVEMBER - íshokkí
Aftur og nýbúnir! SA Víkingar sækja Fjölni heim í Egilshöllina í dag, en þessi lið mættust í Skautahöllinni á Akureyri á laugardaginn. Þar hafði SA 4-3 sigur í leik þar sem Fjölnir náði þrisvar forystunni. SA er í efsta sæti Toppdeildar karla með níu stig eftir sigur í fyrstu þremur leikjum sínum, en Fjölnir er án stiga í botnsætinu.
- Toppdeild karla í íshokkí
Egilshöllin kl. 19:45
Fjölnir - SA
MIÐVIKUDAGUR 12. NÓVEMBER - handbolti
KA vann öruggan sigur á Stjörnunni í 9. umferð Olísdeildarinnar og situr í 3. sæti deildarinnar með 12 stig, eins og Valur, en tveimur stigum á eftir Aftureldingu og Haukum. FH er í 6. sæti deildarinnar með níu stig.
- Olísdeild karla í handknattleik
Kaplakriki í Hafnarfirði kl. 19
FH - KA
KA hefur unnið sex af fyrstu níu leikjum sínum. Þetta er mun betri byrjun en í fyrra og má til samanburðar geta þess að liðið vann átta leiki í deildinni allt síðasta tímabil og komið fram í byrjun mars þegar sjötti sigurleikurinn kom.
FIMMTUDAGUR 13. NÓVEMBER - körfubolti
Þórsurum hefur aðeins tekist að landa einum sigri það sem af er tímabili í 1. deild karla í körfuknattleik og situr í 10. sæti deildarinnar. Hamar og KV eru hvort sínu megin við Þór í töflunni, með einn sigur eins og Þór. Þórsarar fá Héraðsbúa í heimsókn í Höllina á fimmtudag, en lið Hattar féll úr Bónusdeildinni síðastliðið vor. Höttur er í 4. sæti deildarinnar, hefur unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
Þór - Höttur
FÖSTUDAGUR 14. NÓVEMBER - handbolti, blak
Akureyringar fá topplið Olísdeildar karla í handknattleik í heimsókn norður á föstudag. Þórsarar taka þá á móti liði Aftureldingar í 10. umferð deildarinnar. Afturelding er með 14 stig á toppnum, eins og Haukar, en Þórsarar eru í 10. sætinu með sex stig, hafa unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli.
- Olísdeild karla í handknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19
Þór - Afturelding
- - -
Kvennalið KA í blaki á í harðri toppbaráttu við HK, bæði hafa unnið alla sína leiki, en KA er með 20 stig, einu minna en HK. KA og HK eru langefst í deildinni.
KA fær Aftureldingu í heimsókn á föstudag, en þessi lið hafa barist um Íslandsmeistaratitilinn undanfarin ár. Afturelding er í 4. sæti deildarinnar með átta stig úr sjö leikjum.
- Unbroken-deild kvenna í blaki
Íþróttamiðstöðin að Varmá kl. 19
Afturelding - KA
LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER - handbolti, körfubolti, íshokkí
Lið KA/Þórs fékk skell í síðustu umferð á móti ÍBV í Eyjum og situr í 4. sæti deildarinnar með níu stig eftir átta umferðir. KA/Þór tekur á móti Selfyssingum í 9. umferðinni á laugardag, en Selfyssingar eru í 7. sæti deildarinnar með tvö stig.
- Olísdeild kvenna í handknattleik
KA-heimilið kl. 15
KA/Þór - Selfoss
- - -
Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur unnið alla leiki sína í 1. deildinni til þessa og er í toppsætinu. Aþena og Selfoss hafa reyndar einnig unnið fjóra leiki eins og Þór, en Aþena hefur leikið einum leik meira. Tvö félög í Bónusdeildinni eru með B-lið sín í 1. deildinni og á laugardag tekur Þórsliðið á móti B-liði Stjörnunnar sem er í 7. sæti deildarinnar með einn sigur í þremur leikjum.
- 1. deild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16
Þór - Stjarnan b
- - -
Það má búast við hörkuslag í Toppdeild karla í íshokkí á laugardag þegar lið Skautafélags Reykjavíkur kemur norður, en leikurinn verður þriðji leikur SA Víkinga á einni viku. SA vann leik þessara liða á ofurhelginni í Egilshöllinni fyrir stuttu, en SR-ingar hafa síðan þá fengið liðsstyrk með tveimur leikmönnum úr SFH, þeim Pétri Maack og Birni Róbert Sigurðarsyni.
- Toppdeild karla í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - SR
- - -
Seinni íshokkíleikur dagsins er jafn áhugaverður og sá fyrri því kvennalið SA tekur á móti liði Skautafélags Reykjavíkur. SR-ingar hafa styrkst mjög frá síðasta tímabili og eru í 2. sæti deildarinnar með tíu stig. SA hefur unnið alla sína leiki, þar af einn í framlengingu gegn SR. Það verður því örugglega hart barist og von á góðri skemmtun þegar þessi lið mætast á laugardag.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
SA - SR
- - -
Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru í meistaraflokkum, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð í vikubyrjun hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.