Veigar við toppinn eftir fyrsta keppnisdag

Fyrsta keppnisdegi á Íslandsmótinu í golfi á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði lauk nú í kvöld. Veigar Heiðarsson stendur best að vígi af keppendum frá Golfklúbbi Akureyrar (GA) en hann lék á 69 höggum og er tveimur höggum frá efstu mönnum.
Í kvennaflokki lék Andrea Ýr Ásmundsdóttir best GA-kvenna. Hún spilaði hringinn á 79 höggum eða 7 yfir pari og er í 15.-16. sæti, níu höggum frá þeim Huldu Clöru Gestsdóttur og Karen Lind Stefánsdóttur úr GKG sem leiða mótið. Þær Bryndís Eva Ágústsdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir léku báðar á 81 höggi í dag. Allar GA-stúlkurnar eru ofan við miðjan hóp keppenda.
Þess má geta að Hulda Clara er ríkjandi Íslandsmeistari og Karen Lind náði þeim árangri að fá ekki einn einasta skolla á hringnum. Enginn annar keppandi, hvorki í kvenna- né karlaflokki, slapp við að fá skolla í dag en alls taka 138 kylfingar þátt.
Eins og áður segir lék Veigar á 69 höggum í dag eða þremur undir pari. Hann var jafn efstu mönnum á fimm undir pari þegar 16 holur höfðu verið leiknar en fékk skolla á síðustu tveimur og er jafn í fimmta sæti. Tumi Hrafn Kúld lék á 74 höggum í dag, tveimur yfir pari, og er jafn öðrum í 27. sæti. Óskar Páll Valsson lék á 76 höggum og þeir Víðir Steinar Tómasson og Valur Snær Guðmundsson á 77 höggum. Mikael Máni Sigurðsson lék á 79 höggum.
Annar hringur mótsins hefst strax að morgni föstudags og að honum loknum fær um það bil helmingur keppenda að halda áfram og leika seinni tvo hringina um helgina. Okkar fólk má því ekkert misstíga sig á öðrum hring.
Bein útsending verður frá mótinu á föstudeginum frá kl. 15:30 til 18:30 á RÚV. Fylgjast má með skori keppenda í mótinu hér.