Fara í efni
Íþróttir

Bryndís Eva keppti með stúlknalandsliðinu á HM

Andri Ágústsson, þjálfari og liðsstjóri, ásamt þeim Evu Kristinsdóttur, Bryndísi Evu Ágústsdóttur og Pamelu Ósk Hjaltadóttur sem skipuðu stúlknalandsliðið. Mynd: Golfsamband Íslands.

Íslenska stúlknalandsliðið í golfi keppti á heimsmeistaramóti stúlknalandsliða 2025 í Kanada dagana 17.-20. september sl. Bryndís Eva Ágústsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar var ein þriggja stúlkna sem skipuðu landsliðið en auk hennar voru Eva Kristinsdóttir og Pamela Ósk Hjaltadóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar í liðinu.

Keppt var bæði í einstaklings- og liðakeppni. Á keppnisdögunum fjórum léku keppendur samtals 72 holur í höggleik, þar sem tvö bestu skorin töldu á hverjum hring í liðakeppninni. Íslenska liðið hafnaði í 16. sæti liðakeppninnar, ásamt austurríska liðinu, á 26 höggum yfir pari en þátttökuþjóðirnar voru alls 23. Lið Suður-Kóreu varð heimsmeistari í liðakeppninni á 20 höggum undir pari.

Bryndís Eva lék hringina fjóra á samtals 314 höggum eða 26 höggum yfir pari og hafnaði jöfn í 57. sæti einstaklingskeppninnar. Pamela Ósk lék á 309 höggum og Eva á 294 höggum. Enska stúlkan Charlotte Naughton bar sigur úr býtum í einstaklingskeppninni á 10 höggum undir pari.

Keppnistímabilið hefur verið viðburðaríkt hjá Bryndísi Evu, en auk ýmissa landsliðsverkefna varð hún Íslandsmeistari 15-16 ára stúlkna, bæði í höggleik og holukeppni, og varð auk þess stigameistari í aldursflokknum annað árið í röð.