Fara í efni
Íþróttir

Enn met á Jaðarsvelli: 37.829 spilaðir hringir

Púttað á 2. flöt Jaðarsvallar í sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sumarið 2025 var algjört metár í spiluðum hringjum á velli Golfklúbbs Akureyrar (GA), Jaðarsvelli, en alls voru spilaðir 37.829 hringir frá opnun vallarins 12. maí fram til 19. október sem var síðasti dagurinn sem völlurinn var opinn í sumar. Þetta er aukning um rétt rúmlega 25% frá síðasta sumri sem var jafnframt metár í spiluðum hringjum.

Þetta kemur fram í frétt á vef GA og þar segir einnig að stærsti þátturinn í þessari aukningu sé að félagar í klúbbnum hafa spilað fleiri hringi en áður. Alls eiga GA-félagar heiðurinn af 29.270 hringjum af þessum 37.829 og er það aukning um 33% frá árinu 2024. Eins og akureyri.net fjallaði um fyrr í sumar hefur verið mikill uppgangur hjá Golfklúbbi Akureyrar undanfarið og félögum í klúbbnum fjölgað mikið. Frá síðasta ári hefur meðlimum fjölgað um 140 og þeir eiga sinn þátt í auknu spili en til viðbótar því eru félagsmenn almennt farnir að spila fleiri hringi en áður og það er mikið gleðiefni, segir í fréttinni á vef GA.

Eins og sést á myndinni var metið frá 2024 slegið rækilega. Mynd: Vefsíða GA.

Líklegt má telja að hagstætt veðurfar í sumar hafi haft jákvæð áhrif á golfáhugann hjá kylfingum og veðurfarið hjálpaði líka til við að hafa völlinn grænan og fallegan. En aukin spilamennska á vellinum kallar auðvitað á mikla vinnu starfsmanna klúbbsins við að halda gæðum hans uppi og þjónusta allan þann fjölda kylfinga sem sækir völlinn heim á hverjum degi.

En þótt golftímabilinu sé formlega lokið á Jaðarsvelli geta GA-félagar og aðrir kylfingar spilað völlinn allt árið um kring. Í nýrri inniaðstöðu GA eru sex golfhermar af vönduðustu gerð og í þeim er hægt að spila golfvelli úr öllum heimshornum – líka Jaðarsvöll.

  • Frétt akureyri.net 20. ágúst sumar:

Félagar í GA orðnir rúmlega þúsund