Fara í efni
Íþróttir

„Unnum á smáatriðum í lokin“

Herborg Rut Geirsdóttir fyrirliði SA með Íslandsbikarinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Herborg Rut Geirsdóttir kom til SA fyrir þetta tímabil eftir að hafa verið búsett og spilað hokkí lengi í Noregi og svo í 1. deild í Svíþjóð. Hún hóf hokkíferilinn í SA, en flutti ung til Noregs ásamt fjölskyldunni. Herborg sneri heim til Íslands 2021, lék með Fjölni síðasta vetur en gekk til liðs við SA í fyrrasumar, er fyrirliði liðsins og var að lyfta Íslandsbikarnum í fyrsta skipti.

Herborg sagði leikina þrjá hafa verið fjöruga, en með því að byggja upp sjálfstraust, vinna í smáatriðum og fínpússa lykilatriði hafi SA-liðið náð að hampa titlinum og átt það skilið.

„Mér fannst Fjölnir í öllum leikjunum þannig séð gefa mjög mikla baráttu. Það voru smáatriði sem komu að því að við unnum í lokin. Ég held að það hafi aldrei verið jafn erfitt að spila úrslitaleiki áður og þetta var mjög spennandi, en mér fannst að við ættum þetta skilið í lokin. Við ákváðum saman að við ætluðum að fínpússa ákveðin lykilatriði sem við ætluðum að vinna með til að fá þessa dollu í lok leiksins,“ sagði Herborg glaðbeitt inni á svellinu eftir að hafa lyft Íslandsbikarnum með liðsfélögunum.

Lærðuð þið eitthvað af fyrsta leiknum hérna sem skilaði sér í kvöld?

„Já, en mér fannst hann þannig séð ekkert hræðilegur. Mér fannst Fjölnir koma með rosalega mikla baráttu. Við vissum af því og héldum aldrei að það yrði eitthvað auðveldur leikur, þær sýndur okkur alveg að þetta væri alls ekki auðvelt. Þær sýndu geggjaða baráttu, en þær eru með færri leikmenn en við og verða kannski þreyttari fyrr. Þetta voru mjög skemmtilegir leikir og skemmtileg úrslit, allt í allt.“

„Byggðum upp sjálfstraustið og það skein í gegn“

Þið komust í 5-0 í leiknum í kvöld, var þetta eins öruggt og tölurnar gefa til kynna?

„Já, við vorum búnar að byggja upp sjálfstraustið og það skein í gegn í síðustu tveimur leikjum,“ sagði Herborg. Aðspurð sagði hún að það hafi engu skipt þótt þær hafi fengið mark á sig á lokasekúndunum. „Nei, veistu, mér var alveg sama, þær áttu mark skilið, fannst mér, þannig að það var allt í lagi, svo lengi sem við unnum.“

Hvernig tilfinning er það svo að lyfta Íslandsmeistarabikarnum?

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég geri það, hef aldrei gert það áður. Það er bara geggjuð tilfinning og ég skemmti mér rosalega mikið,“ sagði Herborg Rut Geirsdóttir, fyrir liði SA og nýkrýndur Íslandsmeistari í íshokkí.