Fara í efni
Íþróttir

Tryggvi í fyrsta skipti meðal 10 efstu í kjörinu

Tryggvi Snær Hlinason í leik með Zaragoza í Meistaradeild Evrópu.

Tryggvi Snær Hlinason er sá eini sem tengist Akureyri á lista yfir þá 10 íþróttamenn sem urðu efstir í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins að þessu sinni. Listinn var birtur í morgun. Tryggvi er Bárðdælingur en hóf ferilinn hjá Þór; mætti á fyrstu æfinguna snemma árs 2014, 16 ára, og hefur nú verið atvinnumaður á Spáni nokkur misseri.

Þessir íþróttamenn eru í 10 efstu sætunum, í stafrófsröð: Anton Sveinn McKee (sund), Aron Pálmarsson, (handknattleikur, Bjarki Már Elísson (handknattleikur), Glódís Perla Viggósdóttir (knattspyrna), Guðni Valur Guðnason (frjálsíþróttir) Gylfi Þór Sigurðsson (knattspyrna), Ingibjörg Sigurðardóttir (knattspyrna), Martin Hermannsson (körfuknattleikur), Sara Björk Gunnarsdóttir (knattspyrna) og Tryggvi Snær Hlinason (körfuknattleikur).

Einn Akureyringur hefur hlotið nafnbótina Íþróttamaður ársins – Alfreð Gíslason, handboltamaður úr KA, árið 1989, þegar hann lék með Bidasoa frá Irun á Spáni.

Þrír efstu í kjöri á þjálfara ársins eru allir knattspyrnuþjálfarar; Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 árs landsliðs karla, Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í Svíþjóð og Heimir Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals.

Þrjú efstu í kjöri liðs ársins eru allt knattspyrnulið; kvennalið Breiðabliks, kvennalandslið Íslands og U21 árs landslið karla.