Fara í efni
Íþróttir

Tryggva Snæ gengur mjög vel með Zaragoza

Tryggva Snæ gengur mjög vel með Zaragoza

Tryggva Snæ Hlinasyni og félögum hjá Casademont Zaragoza gengur afar vel í Meistaradeild Evrópu í körfubolta þótt á brattann hafi verið að sækja í spænsku deildinni í vetur.

Zaragoza sigraði í fyrrakvöld ungverska liðið Falco Szombathely 85:76 á heimavelli og hefur þar með fullt hús stiga í D-riðli Meistaradeildarinnar; hefur unnið þrjá fyrstu leikina. Tryggvi gerði 12 stig í leiknum og tók tvö fráköst.

„Við lékum mjög vel framan af, hleyptum þeim svo inn í leikinn en spiluðum aftur mjög vel seinni hlutann,“ sagði Tryggvi Snær við Akureyri.net, mjög ánægður með sigurinn. „Deildirnar eru misjafnar, margir myndu segja að Evrópukeppnin sé harðari að ýmsu leyti en spænska deildin er ein sú sterkasta í Evrópu og spænsk lið standa sig yfirleitt mjög vel í Evrópukeppni,“ segir Tryggvi, spurður um muninn á gengi liðsins á þessum tveimur vígstöðvum.

„Mér persónulega hefur gengur mjög vel fram að þessu, það var gott að vinna tvo leiki í röð í deildinni heima og nú er bara næsta verkefni að vinna fleiri. Byrjunin hjá okkur í deildinni á Spáni var erfið, það tók tíma að vinna fyrsta sigurinn en ég held að liðið sé að verða betra og er spenntur fyrir seinni hluta tímabilsins.“