Fara í efni
Íþróttir

Þrjú stig og Þór/KA verður í efri hlutanum

Hulda Ósk Jónsdóttir, lengst til vinstri, gerði sigurmarkið í dag, Karen María Sigurgeirsdóttir skaut að marki Selfoss eftir um 20 sek., boltinn fór í varnarmann og hrökk til Margrétar Árnadóttur - lengst til hægri - sem skoraði.

Þór/KA nældi í þrjú dýrmæt stig í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, þegar liðið sigraði Selfoss 2:1 á útivelli. Margrét Árnadóttir skoraði strax á fyrstu mínútu – eftir 22 sekúndur – og Hulda Ósk Jónsdóttir gerði sigurmarkið á 65. mín. Áður hafði heimaliðið jafnað leikinn.

Stelpurnar okkar eru öruggar með sæti í efri hluta deildarinnar, en sex efstu liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn og sæti í Evrópukeppni. 

  • 0:1 Margrét Árnadóttir skoraði eftir aðeins 22 sek. sem fyrr segir. Hún náði boltanum strax eftir að heimamenn byrjuðu með boltann, sendi á Kareni Maríu Sigurgeirsdóttur sem skaut í varnarmann en boltinn hrökk aftur til Margrétar. Hún þrumaði að marki - og boltinn söng í netinu!
  • 1:1 Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir skoraði af stuttu færi eftir mikið klafs í markteignum í kjölfar hornspyrnu. Leikmenn Þórs/KA vildu meina að sóknarmaðurinn hefði gerst brotlegur en dómarinn var ósammála því.
  • 1:2 Agnes Birta Stefánsdóttir átti langa sendingu fram á Huldu Ósk Jónsdóttur, hún var rétt við utan vítateig, lét vaða á markið og skoraði þótt markvörður heimaliðsins kæmið við boltann. 

Þór/KA fékk nokkur gullin tækifæri til að skora meira en Idun Kristine Jörgensen var frábær í marki heimaliðsins.

Selfyssingurinn Katla María Þórðardóttir var rekin af velli á 42. mínútu fyrir að sparka í Dominique Jaylin Randle, bakvörð Þórs/KA.

Efstu sex liðin, að lokinni hefðbundinni tvöfaldri umferð, mætast í einfaldri umferð í lokabaráttunni, þar sem hvert lið spilar fimm leiki. Þrjú efstu fá þrjá heimaleiki en þau neðri þrjú aðeins tvo leiki á heimavelli.

Valur er efstur með 39 stig og Breiðblik er í öðru sæti með 34. Keppni næstu fjögurra liða er hnífjöfn: Stjarnan er með 26 stig og Þróttur, FH og Þór/KA með 25.

Það veltur því á úrslitum í 18. umferð um næstu helgi hvernig röðin verður. Leikirnir verða sunnudaginn 27. ágúst og hefjast allir kl. 14.00.

  • Þróttur - Breiðablik
  • Tindastóll - Þór/KA
  • Stjarnan - Selfoss
  • ÍBV - FH
  • Valur - Keflavík

Með sigri á Tindastóli á Sauðárkróki kæmist Þór/KA í 28 stig en það dugar því miður mjög ólíklega til að komast ofar en í fjórða sæti. Stjarnan fær botnlið Selfoss í heimsókn og fer með sigri í 29 stig. Ekki dugar þó að velta því fyrir sér;  lið Þórs/KA einblínir eingöngu að vinna á Króknum og sjá svo til. Það hefur margoft sýnt sig að allt getur gerst í íþróttum! 

Til að Þór/KA nái þriðja sæti ...

  • ... þarf Þór/KA að vinna Tindastól á Sauðárkróki
  • ... má Stjarnan í mesta lagi gera jafntefli við Selfoss í Garðabænum
  • ... má Þróttur ekki vinna Breiðablik á heimavelli
  • ... má FH ekki vinna ÍBV í Eyjum

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna úr viðureign Selfoss og Þórs/KA