Fara í efni
Íþróttir

Þrjú mörk SA Víkinga á 27 sekúndum

Leik lokið með sigri SA Víkinga. Myndin er tekin úr nýju félagsaðstöðunni í Skautahöllinni sem var formlega tekin í notkun í dag. Mynd: Haraldur Ingólfsson

SA Víkingar héldu áfram sigurgöngu sinni á Íslandsmótinu í íshokkí, Hertz-deild karla, með tveggja marka sigri á SR-ingum, sem varð óþarflega tæpur í lokin eftir frábæra byrjun heimamanna. Þrjú mörk á 27 leiksekúndum í fyrsta leikhluta gáfu tóninn, en SA Víkingar gáfu of mikið eftir í þriðja leikhlutanum þó það hafi ekki komið að sök þegar upp var staðið.

SA Víkingar gáfu gestunum engin grið í upphafi enda engin ástæða til, Skautafélagsfólk í hátíðarskapi eftir formlega vígslu nýrrar félags- og æfingaaðstöðu í norðurenda Skautahallarinnar. Nánar verður fjallað um nýju félagsaðstöðuna í annarri frétt.

Eftir rúmlega sex mínútna leik skoraði Jóhann Már Leifsson fyrsta mark leiksins og ekki nóg með það heldur skoraði hann aftur átta sekúndum eftir að leikur hófst að nýju. Róbert Hafberg bætti svo við þriðja markinu aðeins 18 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju eftir annað mark Jóhanns. Þrjú mörk á um það bil 27 leiksekúndum og SA Víkingar með þriggja marka forystu eftir fyrsta leikhlutann. SR-ingar mættu með aðeins þunnskipaðra lið en oft áður, en það tekur þó ekkert af heimamönnum sem áttu fyrsta leikhlutann. Til marks um það má nefna að Jakob Ernfelt Jóhannesson í marki SA þurfti aðeins að verja fjögur skot í fyrsta leikhluta á meðan Atli Valdimarsson í marki SR fékk á sig 24 skot og varði 21 af þeim.


Þó íshokkí sé með hraðari íþróttum sem stundaðar eru í heiminum þarf stundum að stoppa, anda rólega og ræða málin. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Liðin buðu áfram upp á markaveislu í öðrum leikhluta, en skiptu mörkunum í þetta skiptið. Heiðar Kristveigarson minnkaði muninn snemma í leikhlutanum, en SA Víkingar svöruðu með tveimur mörkum áður en Axel Orongan skoraði annað mark gestanna. Akureyringarnir í Laugardalnum að skila sínu fyrir SR-liðið. SR-ingar fengu gott tækifæri til að minnka muninn í eitt mark þegar þeir fengu víti snemma í þriðja leikhlutanum, en Sölva Atlasyni tókst ekki að nýta það tækifæri.

Það var rétt um ein og hálf mínúta liðin af þriðja leikhluta þegar gestirnir minnkuðu muninn í tvö mörk, staðan orðin 5-3 og nóg eftir. Um miðjan þriðja leikhlutann fengu tveir SA-Víkingar á sig tvo dóma með stuttu millibili og var sá seinni fimm mínútna dómur á Orra Blöndal. Gestirnir nýttu sér það og minnkuðu muninn í 5-4 þegar þeir spiluðu tveimur fleiri. Þegar lið sem er í yfirtölu skorar er reglan í hokkí að leikmaður í refsiboxi kemur strax inn í stað þess að klára refsinguna, en aðeins þegar um tveggja mínútna refsingu er að ræða. SA Víkingar voru því áfram einum færri og aðeins einu marki yfir þegar enn voru um níu mínútur til leiksloka og þrjár og hálf mínúta eftir af refsitíma Orra. Skömmu síðar fengu þeir aftur tveggja mínútna refsingu og fengu því verðugt verkefni á lokamínútunum, einum til tveimur færri í um fimm og hálfa mínútu á meðan refsitíminn leið.


Tveir gamlir hokkímenn, Davíð Björnsson og Sveinn Björnsson, eða Dabbi Björns og Denni, að ræða málin yfir leiknum í nýju félagsaðstöðunni. YouTube-streymi frá leiknum á sjónvarpsskjá í baksýn. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

SA Víkingar stóðust áhlaupið og kláruðu leikinn með skemmtilegu marki Andra Freys Sverrissonar. SR-ingar tóku markvörðinn út af og fjölguðu útileikmönnum þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Þegar rúm hálf mínúta var eftir fékk Andri Freyr pökkinn á eigin vallarhelmingi, enginn í marki SR og Andri sendi pökkinn í fallegum boga yfir varnarmann SR og í autt markið. Tveggja marka munur og sigurinn í höfn eftir að SA Víkingar héldu áfram að verjast síðustu sekúndurnar.

SA Víkingar - SR 6-4 (3-0, 2-2, 1-2)

  • 1-0 Jóhann Már Leifsson (06:10). Stoðsending: Gunnar Arason.
  • 2-0 Jóhann Már Leifsson (06:18). Stoðsending: Uni Steinn Blöndal Sigurðarson, Orri Blöndal.
  • 3-0 Róbert Hafberg (06:36). Stoðsending: Baltasar Hjálmarsson, Unnar Hafberg Rúnarsson.
    - - -
  • 3-1 Heiðar Kristveigarson (25:20). Stoðsending: Ómar Söndruson, Gunnlaugur Þorsteinsson.
  • 4-1 Uni Steinn Sigurðarson Blöndal (27:38). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson, Andri Már Mikaelsson.
  • 5-1 Gunnar Aðalgeir Arason (35:11). Stoðsending: Uni Steinn Sigurðarson Blöndal, Jóhn Már Leifsson.
  • 5-2 Axel Orongan (38:11). Stoðsending: Sölvi Atlason, Benedikt Olgeirsson.
    - - -
  • 5-3 Bjarki Jóhannesson (41:29). Stoðsending: Gunnlaugur Þorsteinsson.
  • 5-4 Axel Orongan (50:47). Stoðsending: Sölvi Atlason, Bjarki Jóhannesson.
  • 6-4 Andri Freyr Sverrisson (59:22).

Jakob Ernfelt Jóhannesson varði 31 skot í marki SA Víkinga, eða 88,57% af þeim skotum sem á mark hans komu. Atli Valdimarsson í marki SR varði 37 skot eða 86,05%. Heimamenn dvöldu samtals í 15 mínútur í refsiboxinu en gestirnir í fjórar.

Nokkuð er síðan SA Víkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn og eru áfram langefstir í deildinni.

Skautafélagið hefur lengi verið öflugt í því að streyma frá heimaleikjum sínum. Upptökur frá leikjum eru aðgengilegar og útsendingunni í dag lauk með því að sýna það helsta úr leiknum.  

Hér má sjá sjötta mark SA Víkinga:

Hér er hægt að fara beint inn í útsendinguna þegar mörkin voru endursýnd að leik loknum.