Fara í efni
Íþróttir

Þórsurum reynist enn fyrirmunað að skora

Jóhann Helgi Hannesson og Fjölnismaðurinn Arnór Breki Ásþórsson stíga dans í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór og Fjölnir gerðu jafntefli, 0:0, í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í dag á Þórsvellinum (SaltPay vellinum). Þórsurum var fyrirmunað að skora og hafa nú ekki náð að koma boltanum í mark andstæðinga sinna í fimm leikjum í röð. Þeir skoruðu síðast 23. júlí í 4:2 sigri á Gróttu á heimavelli.

Nokkrir leikmenn Þórs eru frá vegna meiðsla en liðið lék þó vel í fyrri hálfleik, betur en oft áður í sumar. Þórsarar höfðu yfirburði í fyrri hálfleiknum, fengu ákjósanleg færi en var fyrirmunað að skora. Gestirnir fengu svo mjög gott færi í lok hálfleiksins en það nýttist ekki heldur.

Leikurinn var ekki eins fjörugur eftir hlé en Þórsarar hefðu getað skorað með smá heppni. Eins og í fyrri hálfleik fengu gestirnir svo gott færi í blálokin; Michael Bakare komst einn í gegn en Daði Freyr Arnarsson í Þórsmarkinu varði.

Þórsarar eru komnir niður í þriðja neðsta sæti en eru þó ekki í raunverulegri fallhættu. Þeir eru með 20 stig eftir 18 leiki, Þróttarar hafa 11 stig úr 19 leikjum og Víkingar frá Ólafsvík eru þegar fallnir, eru með fimm stig úr 18 leikjum.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.