Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar léku vel og unnu toppliðið – MYNDIR

Spánverjinn Ian Perelló Machi, sem hér hleypir af í leiknum í gær, skoraði fyrra mark Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu sanngjarnan 2:0 sigur á HK á heimavelli í gær í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. HK er enn í efsta sæti, einu stigi á eftir Fylki sem á nú leik til góða. Þórsarar eru komnir upp í sjötta sæti með 23 stig.

Lið Þórs lék sérlega vel í fyrri hálfleik og lagði þá grunninn að flottum sigri á sterku HK liði. Þórsarar héldu boltanum vel og voru sannfærandi en toppliðið komst lítið áleiðis. Í seinni hálfleik færðist aukin harka í leikinn en Þórsarar héldu fengnum hlut með næsta öruggum hætti.

Það var Spánverjinn Ion Perelló Machi sem gerði fyrra markið með glæsilegu skoti utan vítateigs á 19. mínútu og Alexander Már Þorláksson það seinna, þegar hálftími var liðinn; hann fékk sendingu inn fyrir vörnina og vippaði laglega yfir markvörðinn sem kom út á móti.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

FLOTT MARK PERELLÓ
Spánverjinn Ian Perelló Machi kom Þór á bragðið með mjög laglegu marki; hann skaut utan vítateigs og boltinn sleikti markstöngina áður en hann söng í netinu Þegar Perelló skoraði voru tæpar 20 mínútur búnar. Hann er hér afar einbeittur í skotstöðu, en skoraði reyndar ekki í þetta skipti.

_ _ _

SJÖTTA MARK ALEXANDERS
Alexander Már Þorláksson kom Þór í 2:0 á 30. mínútu. Þórsarar fóru þá illa með vörn gestanna; HK-ingar töldu að um rangstöðu væri að ræða og hikuðu. Alexander fékk boltann frá Harley Willard á miðjum vallarhelmingi HK og sendi inn fyrir vörnina á Bjarna Guðjón Brynjólfsson sem hélt líka að hann væri rangstæður (sem hann var reyndar ekki) og aðhafðist því ekkert, Alexander spretti hins vegar úr spori, náði boltanum sjálfur og vippaði laglega yfir markmanninn sem kom út á móti honum. Sjötta mark hans í níu leikjum með Þór.

_ _ _

GÁTU SKORAÐ MEIRA
Þórsarar voru ekki langt frá því að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik. Bjarni Guðjón Brynjólfsson átti til dæmis glæsilega sendingu á milli varnarmanna á Harley Willard, en Arnar Freyr markvörður HK var rétt á undan honum að ná boltanum.

_ _ _

BARIST AF KRAFTI
Leikmenn liðanna tókust vel á í seinni hálfleik en voru þó ekki grófir; gula spjaldið fór þá fjórum sinnum á loft, til dæmis fékk HK-ingurinn Bjarni Páll Linnet Runólfsson áminningu fyrir þetta brot á Ion Perelló Machi, stuðningsmenn Þórs í stúkunni bentu dómaranum vinsamlega á að brotið verðskuldaði rautt spjald en svo var ekki.

_ _ _

HK ÓGNAR
Boltinn lenti í þverslá Þórsmarksins á 59. mínútu eftir aukaspyrnu, fór þaðan út í teig og eftir næsta skot bjargaði Elvar Baldvinsson, lengst til hægri á myndinni, á línu eða því sem næst. Bruno Gabriel Soares, lengst til vinstri, virðist telja boltann hafa farið inn fyrir línuna en hann var einn á þeirri skoðun.

_ _ _

SIGURÐUR MARINÓ
Reynsluboltinn Sigurður Marinó Kristjánsson kom við sögu hjá Þór á ný í gær; kom inn á í stað Ion Perelló þegar nokkrar mínútur voru eftir. Þetta er aðeins annar leikur Sigurðar í sumar, hann lék lokamínúturnar í sigri á Kórdrengjum í fyrstu umferð deildarinnar í vor en hefur verið meiddur síðan.

_ _ _

ÞORLÁKUR ÁNÆGÐUR
Þjálfari Þórs, Þorlákur Árnason, var afar sáttur við sína menn í gær. Hann sagðist, í viðtali við fótbolta.net, helst hafa óttast að leikmenn myndu ekki hafa næga orku þar sem þetta væri þriðji leikur liðsins á átta dögum en það var ekki að sjá. 

_ _ _

SJÖUNDI SIGURINN – FJÓRÐA TAPIÐ
Þetta var sjöundi sigur Þórs í deildinni og sá fjórði í síðustu fimm leikjum. Leikurinn er sá fjórði sem HK-ingar tapa í sumar og þeir eru áfram á toppnum, einu stigi á undan Fylki sem á nú leik til góða. Hér gengur Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, af velli í gær.