Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA tapaði með minnsta mun

Lið Þórs/KA stillir sér upp fyrir Pál Jóhannesson, hirðljósmyndara Þórs, fyrir síðasta heimaleik, 1:0 sigur á Tindastóli. Byrjunarliðið var eins í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA tapaði 1:0 fyrir Þrótti í kvöld í Reykjavík, í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Hin bandaríska Dani Rhodes gerði eina markið þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en frammistaða Stelpnanna okkar var heilt yfir fín og þær fengu ágæt færi til að skora. 

„Þetta var bara hörkuleikur, tvö flott lið og mér fannst þetta svolítið kaflaskipt,“ sagði Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/​KA, í samtali við mbl.is leikinn.

„Þær áttu kafla þar sem þær voru hættulegar og svo fannst mér við ná að komast betur inn í þetta og eiga smá syrpur. Þetta hefði getað fallið hvorum megin sem var.“

Harpa sagði að Þór/KA hefði náð að ögna töluvert „og mér fannst sem það hafi bara vantað að pota boltanum inn. Svo er alltaf hætta á því þegar maður nær ekki að skora að hitt liðið nái að refsa, þannig er bara fótboltinn,“ sagði Harpa.

Hún sagði leikmenn Þórs/​KA ekki ætla að sýta tapið því margt væri hægt að taka jákvætt úr leiknum. „Við eigum tvo leiki eftir við flott lið og við verðum bara að fara upp með hausinn og gleyma þessum leik sem fyrst. Við fáum smá pásu núna, sleikjum sárin og verðum klárar í síðustu tvo leikina,“ sagði Harpa við mbl.is.

Eftir leiki kvöldsins er Þór/KA áfram í sjötta sæti, hefur 18 stig eftir 16 leiki, tveimur stigum á undan ÍBV sem tapaði í kvöld fyrir liði Selfoss.

Smellið hér til að sjá umfjöllun mbl.is

Smellið hér til að leikskýrsluna