Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA tapaði í Garðabæ og sígur niður töfluna

Karen María Sigurgeirsdóttir gerði mark Þórs/KA í Garðabæ í dag með stórglæsilegu langskoti. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA heimsótti Stjörnuna í Garðabæ í dag í efstu deild kvenna í knattspyrnu. Með sigri hefði liðið náð að jafna við Valsara í fjórða sæti deildarinnar en heimastúlkur sýndu enga gestrisni og unnu öruggan 4:1 sigur. Þessi úrslit þýða að liðin höfðu sætaskipti í deildinni og er Þór/KA nú komið niður í 6. sætið.

Sandra María Jessen er farin á ný í atvinnumennsku til Þýskalands og hennar skarð í liðinu er auðvitað vandfyllt. Ekki bætti úr skák þegar Margrét Árnadóttir þurfti að fara af velli snemma leiks vegna meiðsla. Hópurinn var þunnskipaður og aðeins fjórir útileikmenn á varamannabekknum. Stjarnan náði forystunni í leiknum eftir 20 mínútur en Karen María Sigurgeirsdóttir jafnaði korteri síðar með stórglæsilegu langskoti. Þannig var staðan í leikhléi eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik.

Stjörnustúlkur voru hins vegar mun betri aðilinn í seinni hálfleik. Þær áttu nokkur góð færi áður en þær komust yfir á 60. mínútu eftir klaufagang hjá Þór/KA. Tíu mínútum fyrir leikslok bættu þær þriðja markinu við, aftur eftir klaufagang í öftustu línu Þórs/KA. Fjórða og síðasta markið kom nokkrum mínútum síðar og sanngjarn Stjörnusigur var aldrei í hættu.

Tvær umferðir eru eftir af deildinni áður en úrslitakeppni efri og neðri hluta hefst. Sex efstu liðin leika í efri hlutanum um Íslandsmeistaratitilinn og fjögur neðstu liðin leika um að sleppa við fall í næstefstu deild. Þór/KA á ennþá á hættu að sogast niður í fallbaráttuna þannig að liðið þarf helst að fá einhver stig úr síðustu tveimur deildarleikjunum.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni