Þór/KA steinlá fyrir frábæru Blikaliði

Breiðablik, langbesta kvennalið landsins, fór illa með Þór/KA í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Það þykir ekki slæmt að gera tvö mörk gegn Blikum á útivelli og það gerðu gestirnir í dag; Henríetta Ágústsdóttir gerði bæði mörk Þórs/KA, en Breiðablik gerði hvorki fleiri né færri en níu mörk. Úrslitin 9:2.
Leikurinn var í 18. og síðustu umferð deildarinnar fyrir skiptingu hennar í tvennt; „framlenginguna“ þar sem sex efstu liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn og fjögur þau neðstu berjast um að halda sæti í deildinni. Þetta er þriðja árið sem leikið er eftir þessu fyrirkomulagi og Þór/KA verður nú í fyrsta skipti í neðri hlutanum.
Fyrir leikinn voru nánast engar líkur taldar á að Þór/KA yrði meðal efri liðanna. Til þess yrði liðið að sigra Breiðablik í Kópavogi og einnig að treysta á að Víkingur tapaði á heimavelli fyrir FHL, langneðsta liðinu.
Þór/KA byrjaði vel í dag en Breiðablik gerði þó fyrsta markið. Þar var að verki Berglind Björg Þorvaldsdóttir og markið aðeins forsmekkurinn af því sem koma skyldi, bæði hjá henni og liðinu. Berglind Björg gerði nefnilega fimm mörk í leiknum, þar af fjögur i fyrri hálfleik.
Henríetta Ágústsdóttir minnkaði muninn í 2:1 eftir tæpan hálftíma og seinna markið gerði hún í seinni hálfleik þegar staðan var orðin 7:1.
Liðin fjögur í neðri hlutanum eru Þór/KA og Fram, sem eru með 21 stig, Tindastóll með 17 og FHL, sem er löngu fallið, með aðeins fjögur stig. Tvö lið falla, hvert lið á þrjá leiki fyrir höndum þannig að níu stig eru í pottinum þannig öll hin þrjú eru í fallhættu.
Staðan eftir hefðbundna tvöfalda umferð
Leikir fjögurra neðstu liðanna:
Laugardag 27. september
- Þór/KA – Tindastóll
- Fram – FHL
Laugardag 4. október
- Fram – Tindastóll
- FHL – Þór/KA
Laugardag 11. október
- Þór/KA – Fram
- Tindastóll - FHL