Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA: Heiða Ragney fékk Kollubikarinn

Með Kollubikarinn. Frá vinstri: Nói Björnsson, Heiða Ragney Viðarsdóttir, Jóhanna Jessen og Sigurgeir Svavarsson. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Heiða Ragney Viðarsdóttir hlýtur Kollubikarinn 2020 en þar er um að ræða árlega viðurkenningu til einhvers leikmanns knattspyrnuliðs Þórs/KA. Valið var tilkynnt á gamlársdag og bikarinn afhentur er þrír stjórnarmenn heimsóttu Heiðu – Nói Björnsson, Jóhanna Jessen og Sigurgeir Svavarsson voru þar á ferðinni, en verðlaunaafhendingar hafa ekki farið fram með hefðbundnum hætti eftir síðasta keppnistímabil vegna samkomutakmarkana.

Kollubikarinn er veittur til minningar um Kolbrúnu Jónsdóttur, fyrrverandi leikmann og stjórnarmann. „Við val á þeim leikmanni sem hlýtur Kollubikarinn eru hafðir til hliðsjónar eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, svo einhverjir séu nefndir,“ segir á Facebooksíðu Þórs/KA. Kolbrún starfaði lengi í kvennaráði Þórs/KA, en lést á árinu 2016, langt fyrir aldur fram.

Auk þess að fá Kollubikarinn var Heiða Ragney valin besti leikmaður Þórs/KA 2020  ásamt Örnu Sif Ásgrímsdóttur, eins og fram kom á dögunum.

Þær sem áður hafa hlotið Kollubikarinn:

2016: Karen Nóadóttir

2017: Sandra María Jessen

2018: Arna Sif Ásgrímsdóttir

2019: Lára Einarsdóttir