Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA fær heimaleik gegn KR í bikarnum

Leikmenn Þórs/KA fögnuðu innilega eftir annað mark liðsins gegn Tindastóli í Boganum fyrr í mánuðinum. Boginn verður einnig vettvangur leiks í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins þegar Þór/KA tekur á móti KR. Mynd: Ármann Hinrik.

Dregið var til 16 liða úrslita bikarkeppninnar í knattspyrnu kvenna, Mjólkurbikarsins, núna í hádeginu. Þór/KA fær heimaleik gegn KR, sem endaði í 2. sæti 2. deildar í fyrrahaust og leikur í Lengjudeildinni í sumar.

Það vekur upp ákveðnar minningar hjá Þór/KA að fá KR sem mótherja því síðast þegar liðin drógust saman í bikarkeppninni var mótið ekki klárað. Það var á tímum covid og áttu liðin að mætast í undanúrslitum Mjólkurbikarsins 1. nóvember 2020. Sú viðureign fór aldrei fram því keppni var hætt, bæði í deild og bikar, vegna bylgju af covid-smitum á þessum tíma.

Árið áður mættust Þór/KA og KR reyndar í undanúrslitum og þá hafði KR betur á sínum heimavelli, 2-0.  Nú eiga KR-ingar að mæta norður í 16 liða úrslitunum og verður leikið í Boganum.

Leikirnir í 16 liða úrslitunum fara fram 12. og 13. maí. Eftirtalin lið mætast:

  • Fylkir - FH
  • Þróttur - Víkingur
  • Stjarnan - Tindastóll
  • FHL - Breiðablik
  • ÍBV - Völsungur
  • Þór/KA - KR
  • Fram - Valur
  • HK - Grindavík/Njarðvík

Áður hafði verið dregið til 16 liða úrslita í bikarkeppninni hjá körlunum. Þór mætir Selfossi á útivelli þriðjudaginn 13. maí og KA tekur á móti Fram Akureyri fimmtudaginn 15. maí.