Fara í efni
Íþróttir

Þór - Víkingur og KA - Grindavík í bikarnum

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA og Þórsarinn Nikola Kristinn Stojanovic. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson og Þórir Tryggvason

Þórsarar fá bikarmeistara Víkings í heimsókn í átta liða úrslitum bik­ar­keppni karla í fót­bolta, Mjólk­ur­bik­arkeppninni, og KA-menn taka á móti Grindvíkingum. Helmingur leikja átta liða úrslitanna fer því fram á Akureyri.

Dregið var í átta liða úrslitum í hádeginu. Nafn Þórs var dregið fyrst og síðan komu bikarmeistararnir úr pottinum. Víkingar hafa unnið bikarkeppnina þrisvar í röð. KA kom næst síðast upp úr pottinum og þá var ljóst hver mótherjinn yrði; nafn Grindavíkur var það eina sem eftir var.

Þór vann Leikni 3:1 í 16-liða úrslitunum á heimavelli og KA lagði HK 3:1 í Kópavogi. Víkingar sigruðu Gróttu 2:1 í gærkvöldi og þá gerðu Grindvíkingar sér litið fyrir og unnu Valsmenn í Reykjavík, 3:1. Grindavík og Þór eru einu liðinu úr næst efstu deild Íslandsmótsins sem eftir eru í bikarkeppninni, hin sex leika í Bestu deildinni. 

Drátturinn í heild er sem hér segir:

  • Þór - Vík­ing­ur R.
  • KR - Stjarn­an
  • Breiðablik - FH
  • KA - Grinda­vík