Fara í efni
Íþróttir

Þór tekur á móti Ægi, KA leikur í Garðabænum

Þórsarinn Birgir Ómar Hlynsson, til vinstri, í baráttu við Leiknismann í bikarleik á dögunum og Jakob Snær Árnason fagnar eftir að hann gerði annað tveggja marka sinna gegn Fram í Bestu deildinni. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason og Skapti Hallgrímsson

Karlalið Akureyrar í knattspyrnu verða bæði í eldlínunni í kvöld. Þórsarar á heimavelli en KA-menn í Garðabæ.

Leikur Þórs og Ægis í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, hefst á Þórsvellinum klukkan 18.00. Þórsarar eru í fimmt sæti með sex stig eftir fjóra leiki; hafa unnið tvo en tapað tveimur. Þórsliðið steinlá 6:0 fyrir Fjölni í síðustu umferð fyrir sunnan en hefur unnið báða heimaleikina í sumar, fyrsta Vestra 2:1 og síðan Leikni 1:0. Lið Ægis vermir botnsæti deildarinnar með eitt stig eftir fjórar umferðir.

Viðureign Stjörnunnar og KA í efstu deild Íslandsmótsins, Bestu deildinni, hefst einnig klukkan 18.00.

KA er í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig að loknum 10 leikjum. Viðureignin við Stjörnuna í dag er fjórði leikur KA-manna á útivelli það sem af er sumri; þeir hafa tapað 1:0 fyrir Víkingi og 2:0 fyrir Breiðabliki en höfðu betur gegn HK, 2:1

Stjarnan er næst neðst í deildinni með 7 stig eftir 9 leiki.