Fara í efni
Íþróttir

Þór tapaði í hörkuleik fyrir Tindastóli

Atle Bouna Ndiaye, sem lék mjög vel í kvöld, sækir að körfu Tindastóls. Sigurður Þorsteinsson og Tai…
Atle Bouna Ndiaye, sem lék mjög vel í kvöld, sækir að körfu Tindastóls. Sigurður Þorsteinsson og Taiwo Badmus til varnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu fyrir Tindastóli í Norðurlandsslag Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld, 103:91, í hörkuleik. Leikið var í Höllinni á Akureyri.

Viðureignin var jöfn lengst af en á lokaspretti þriðja og næst síðasta leikhluta skutust Sauðkrækingarnir fram úr með klókindum; munurinn var tvö stig áður en Viðar Ágústsson - bróðir Ragnars Þórsara - gerði þriggja stiga körfu, Þórsarar misstu boltinn þegar aðeins 3,6 sekúndur voru eftir og það dugði gestunum; Javon Bess, sem var frábær í leiknum, gerði þrjú stig til viðbótar af löngu færi. Sauðkrækingar höfðu því átta stiga forystu fyrir síðasta fjórðunginn. Þann mun náðu Þórsarar ekki að brúa þrátt fyrir mikla baráttu.

Þegar sex mínútur lifðu leiks og gestirnir með sex stiga forystu var Dúi Þór Jónsson, leikstjórnandi Þórsara, rekinn af velli. Hann var óhress  með að ekki skyldi dæmt þegar Sigurður Þorsteinsson braut á honum og kvartaði við einn dómaranna. Fékk tæknivillu en hélt áfram, eftir að Sigurður viðurkenndi að hafa brotið á Dúa! Dómarinn var ekki hrifnari en af því en fyrri ummælunum, dæmdi aðra tæknivillu og Dúa var gert að yfirgefa salinn.

Atle Bouna Ndiaye lék mjög vel og var stigahæstur Þórsara með 32 stig og Reggy Keely gerði 24 og tók 14 fráköst. Javon Bess og Taiwo Badmus léku yfirburðamenn í liði gestanna.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.