Fara í efni
Íþróttir

Þór samþykkir tilboð í Bjarna frá Val og KR

Bjarni Guðjón Brynjólfsson fagnar eftir að hann skoraði gegn Gróttu í Lengjudeildinni í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnudeild Þórs hefur samþykkt tvö kauptilboð í unglingalandsliðsmanninn Bjarna Guðjón Brynjólfsson, bæði frá Val og KR.  Þrátt fyrir það er ljóst að hann lýkur þessu keppnistímabili með Þór skv. heimildum Akureyri.net.

Það var fotbolti.net sem greindi fyrst frá því undir kvöld að Reykjavíkurfélögin tvö væru búin að bjóða í Bjarna Guðjón og heimildir Akureyri.net herma að Þór hafi þegar samþykkt tilboð beggja. Boltinn er því í höndum Bjarna; hans er að ákveða hvert förinni verður heitið. Þórsarar tilkynntu bæði KR og Val að leikmaðurinn færi hvergi fyrr en eftir þessa leiktíð – kauptilboðum sem gerðu ráð fyrir því að hann færi strax frá Þór yrði ekki svarað. 

Félagaskiptaglugganum verður lokað á miðnætti annað kvöld og miklar líkur eru á að gengið verði frá sölu þessa bráðefnilega leikmanns fyrir þann tíma. 

Bjarni Guðjón er 19 ára. Hann kom fyrst við sögu meistaraflokks hjá Þór haustið 2020 og hefur verið einn lykilmanna liðsins síðan sumarið 2021, þegar hann var aðeins 17 ára. Bjarni Guðjón á að baki 54 leiki með Þór í næstu efstu deild Íslandsmótsins og hefur gert 14 mörk. 

Bjarni Guðjón hefur verið í landsliði 19 ára og yngri undanfarið og var meðal annars með liðinu á lokamóti Evrópukeppninnar á Möltu í sumar.