Fara í efni
Íþróttir

Þór í mikilli fallhættu fyrir lokaumferðina

Þorlákur Árnason þjálfari Þórs, til hægri, og aðstoðarþjálfarinn Sveinn Leó Bogason, í þungum þönkum.
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 1:0 fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, og eru því enn í fallhættu þegar aðeins ein umferð er eftir af deildinni.

Tómas Johannessen gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á áttundu mínútu. Ýmir Geirsson braut lítillega á honum og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari benti umsvifalaust á vítapunktinn. Aron Birkir markvörður skutlaði sér í rétt horn þegar Tómas tók vítið og var ekki langt frá því að verja en í netið fór boltinn.

Það hefur verið blóðugt fyrir Þórsara að skoða upptöku af leiknum því brotið átti sér greinilega stað utan vítateigs og dómur Vilhjálms því rangur. En ekki tjóir að deila við dómarann því hann ræður – jafnvel þegar hann hefur rangt fyrir sér.

Tvívegis í leiknum vildu Þórsarar fá vítaspyrnu, fyrst seint í fyrri hálfleik og síðan undir lok leiksins. Þeir höfðu töluvert til síns máls, en dómarinn var í hvorugt skiptið sama sinnis. 

Þórsarar voru einum fleiri síðustu 20 mínútur eftir að Gróttumaðurinn Patrik Orri Pétursson fékk að líta gula spjaldið öðru sinni í leiknum og þar með það rauða. Þeir voru mun meira með boltann en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Í síðustu umferðinni taka Þórsarar á móti Grindvíkingum. Þór er með 24 stig og þrjú lið eru jöfn í næst neðst sæti með 23, Þróttur, Njarðvík og Selfoss. Ægir er lang neðstur og fallinn.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni

Leikirnir eru lokaumferðinni næsta laugardag:

Lokaumferðin um næstu helgi:

  • Þór - Grindavík
  • Ægir - Leiknir
  • ÍA - Grótta
  • Selfoss - Vestri
  • Fjölnir - Njarðvík
  • Þróttur - Afturelding