Fara í efni
Íþróttir

Þór fór áfram í bikarnum eftir sigur á Leikni

Þórsarar spiluðu vel í dag og unnu verðskuldaðan sigur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru komnir í 8 liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir frábæran 3:1 sigur á Leikni Reykjavík á Þórsvelli nú fyrr í kvöld. Aron Ingi Magnússon, Ion Perello og Ingimar Arnar Kristjánsson gerðu mörk Þórs.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi og var mikið um baráttu út á velli en minna um opin færi. Undir lok fyrri hálfleiks átti Ingimar Arnar frábæran sprett og kom boltanum á Aron Inga sem skoraði. Staðan 1:0 í hálfleik.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi seinni hálfleiks og uppskáru mark á 67. mínútu. Ion Perello gerði það eftir undirbúning frá Valdimar Sævarssyni. Staðan orðin 2:0 og útlitið bjart. En á 74. mínútu minnkuðu Leiknismenn muninn. Róbert Hauksson gerði það eftir góðan undirbúning Omar Sowe.

Leiknismenn pressuðu og voru líklegri aðilinn eftir markið en á 82. mínútu tryggði Ingimar Arnar Þórsliðinu sigur með góðu marki eftir undirbúning frá Ragnari Óla Ragnarssyni. Lokatölur því 3:1 og fögnuðurinn á Þórsvelli í leikslok ósvikinn.

Þórsliðið er það með fyrsta liðið til að tryggja sig áfram í 8 liða úrslit bikarsins en leikirnir í 16 liða úrslitunum klárast næsta fimmtudag.

Nánar verður fjallað um leikinn seinna í kvöld.