Fara í efni
Íþróttir

Tap í stórskotahríð í „Þórlákshöfn“

Dedrick Deon Basile með boltann, Þorlákshafnar-Þórsarinn Styrm­ir Snær Þrast­ar­son til varnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór tapaði fyrir nafna sínum frá Þorlákshöfn, 109:104, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Staðan í einvíginu er því 2:1 fyrir sunnanmenn og liðin mætast næst í Höllinni á Akureyri á miðvikudaginn.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 26:33 – 28:24 (54:57) – 34:24 – 21:23 (109:104)

Segja má að liðin hafi boðið upp á flugeldasýningu í Þorlákshöfn í kvöld, ellegar stórskotahríð: heimamenn skoruðu úr 18 þriggja skotum en Akureyringarnir úr 16!

Dedrick Deon Basile skoraði 27 stig fyr­ir Þór og gaf 11 stoðsendingar.

Larry Thom­as skoraði 29 stig fyr­ir Þorlákshafnarliðið og gaf 10 stoðsend­ing­ar. Call­um Law­son og Styrm­ir Snær Þrast­ar­son gerðu 25 stig hvor.

Þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin og Þorlákshafnarliðið stendur betur að vígi því miðherjinn Adomas Drungilas tók í kvöld út síðasta leikinn í þriggja leikja banni og mætir því til leiks næst.

Líkurnar á að Strákarnir okkar komist áfram í keppninni dvínuðu verulega við tapið í kvöld þótt auðvitað geti allt gerst í íþróttum; mikilvægt verður að fólk fjölmenni í Höllinni á næsta leik og styðji við bakið á liðinu sem aldrei fyrr.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.