Fara í efni
Íþróttir

Tap hjá SA Víkingum – SR tók forystu í einvíginu

SA Víkingar eru lentir á eftir Reykvíkinigum í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn eftir 3-4 tap í fyrsta leik í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla byrjaði í kvöld á svipuðum nótum og það endaði á síðasta tímabili. Lið SR mætti í Skautahöllina á Akureyri og tók forystu í einvíginu með 4-3 sigri á heimamönnum, SA Víkingum. 

Heimamenn voru á undan að skora, komust í snögga sókn þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar og Hafþór Andri Sigrúnarson var fljótari en varnarmenn SR, fékk sendinguna frá Jóhanni Má Leifssyni og kláraði færið af öryggi. Gestirnir voru reyndar mjög nálægt því að skora á upphafsmínútunum, fengu eiginlega tvö dauðafæri á sömu sekúndunni, en Jakob Ernfelt Jóhannesson varði í marki SA. Það var svo langt liðið á fyrstu lotuna þegar Kári Arnarsson skoraði og jafnaði leikinn. 

Kári skoraði sitt annað mark og kom SR í forystu strax á annarri mínútu annars leikhluta. SR-ingar sóttu þá hart að marki SA, Kári náði frákasti eftir að Jakob varði skot og laumaði pökknum í markið út við stöng vinstra megin. Birkir Einisson jafnaði í 2-2 af örstuttu færi eftir hárnákvæma sendingu Unnars Hafberg Rúnarssonar fyrir markið, en innan við mínútu eftir mark SA tóku gestirnir forystuna aftur þegar Kári Arnarsson skoraði sitt þriðja mark.

Einu marki munaði fyrir lokalotuna, en það voru gestirnir sem bættu við marki í þriðju lotu þegar Petr Stepanek tók pökkinn á lofti við mark SA eftir skot og markvörslu. Tveggja marka forysta gestanna, en enn var um stundarfjórðungur til stefnu. Hokkí er hröð íþrótt og það þarf ekki mikinn tíma til að skora mörk og aðeins um einni og hálfri mínútu eftir mark SR minnkaði Andri Már Mikaelsson muninn þegar hann speglaði skot eða sendingu Gunnars Arasonar í markið. SA Víkingar voru þá einum fleiri og í fyrsta skipti í leiknum sem liðunum tókst að nýta sér slíkt tækifæri til að skora. 

SA gerði harða atlögu að því að jafna leikinn og voru mun aðgangsharðari í síðustu lotunni, áttu þá 13 skot á markið á móti þremur. Þeir brugðu líka á það ráð, eins og oft er gert í þessari stöðu, að taka markmanninn út af þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, og fjölga útileikmönnum til að freista þess að skora og jafna leikinn. Tvisvar á þeim tíma reyndar munaði minnstu að gestunum tækist að koma pökknum í autt markið. Þegar um 16 sekúndur voru eftir af leiknum var mikill atgangur við mark SR, varnarmenn og markmaður beinlínis lágu í teignum og vörðu skot heimamanna sem dundu á markinu. Lokasekúndurnar liðu síðan án þess að SA Víkingum tækist að skora og SR því komið með forystu í einvíginu.


SA Víkingar verjast gegn Styrmi Maack. Hann átti þrjár stoðsendingar í leiknum, allar á Kára Arnarsson sem skoraði þrennu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

SA - SR 3-4 (1-1, 1-2, 1-1)

 • 1-0 Hafþór Andri Sigrúnarson (06:54). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson, Halldór Skúlason.
 • 1-1 Kári Arnarsson (18:50). Stoðsending: Filip Krzak, Styrmir Maack.
  - - -
 • 1-2 Kári Arnarsson (21:24). Stoðsending: Styrmir Maack, Ólafur Björnsson.
 • 2-2 Birkir Einisson (34:21). Stoðsending: Unnar Hafberg Rúnarsson, Róbert Máni Hafberg.
 • 2-3 Kári Arnarsson (35:08). Stoðsending: Styrmir Maack, Ólafur Björnsson.
  - - -
 • 2-4 Petr Stepanek (46:52). 
 • 3-4 Andri Már Mikaelsson (49:18). Stoðsending: Gunnar Arason.
 • Leikskýrslan (ihi.is)
 • Liðin (ihi.is)


Kári Arnarsson (23) var iðinn við markaskorunina fyrir SR í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

SA
Mörk/stoðsendingar: Hafþór Andri Sigrúnarson 1/0, Birkir Einisson 1/0, Andri Már Mikaelsson 1/0, Jóhann Már Leifsson 0/1, Halldór Skúlason 0/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/1, Róbert Máni Hafberg 0/1, Gunnar Aðalgeir Arason 0/1.
Varin skot: Jakob Ernfelt Jóhannesson 23 (10, 11, 2) – 85,19%.
Refsimínútur: 4.

SR
Mörk/stoðsendingar: Kári Arnarsson 3/0, Petr Stepanek 1/0, Styrmir Maack 0/3, Filip Krzak 0/1, Ólafur Björnsson 0/2.
Varin skot: Jóhann Ragnarsson 25 (6, 7, 12) – 89,29%.
Refsimínútur: 6.

Annar leikur einvígisins fer fram í Skautahöllinni í Laugardal fimmtudagskvöldið 21. mars og hefst kl. 19:30. Vinna þarf þrjá leiki til að taka titilinn.