Fara í efni
Íþróttir

Svekkjandi tap GA-kvenna í undanúrslitum

Kara Líf Antonsdóttir og Amanda Guðrún Bjarnadóttir léku saman í fjórmenningi í undanúrslitum og töpuðu naumlega í framlengdri viðureign. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Uppfært: Karlasveit GA lék við sveit Golfklúbbs Reykjavíkur í undanúrslitum 1. deildar og beið lægri hlut 3,5:1,5. Þeir leika því um bronsið í fyrramálið. Nánar í lok fréttarinnar.

Sigurganga GA-kvennasveitarinnar í 1. deild Íslandsmóts golfklúbba var loks stöðvuð í dag. Liðið mætti sveit Golfklúbbsins Keilis í undanúrslitaviðureign og tapaði eins naumlega og hægt var að tapa. Tveir leikir unnust, tveir töpuðust og ein viðureign endaði jöfn. Þar var „framlengt“ og leikinn bráðabani og í honum náði sveit GK að vinna fyrstu holuna og þar með viðureignina. Afskaplega súrt og svekkjandi tap!

Kvennaliðið leikur þar með um bronssætið á Íslandsmótinu, á morgun kl. 8,  gegn sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Liðin áttust einmitt við í fyrstu umferð riðlakeppninnar en töpuðu bæði í undanúrslitunum. Árangur GA-sveitarinnar er engu að síður frábær, enda léku konurnar í 2. deild á síðasta ári og eru því nýliðar í 1. deild.

Það voru þær Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Kara Líf Antonsdóttir sem léku saman í fjórmenningnum og töpuðu í bráðabananum. Í tvímenningi unnu þær Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir sína leiki en Arna Rún Oddsdóttir og Björk Hannesdóttir töpuðu. Andrea Ýr og Lilja Maren hafa unnið allar sínar viðureignir í þessu Íslandsmóti.

Andrea Ýr Ásmundsdóttir hefur unnið allar fjórar viðureignir sínar í mótinu. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlasveit GA lék í undanúrslitum gegn mjög sterkri sveit Golfklúbbs Reykjavíkur. Þeir Mikael Máni Sigurðsson og Víðir Steinar Tómasson töpuðu sinni viðureign í fjórmenningi og það sama má segja um Heiðar Davíð Bragason og Val Snæ Guðmundsson. Í tvímenningi vann Tumi Hrafn Kúld sinn leik, Veigar Heiðarsson gerði jafntefli og Eyþór Hrafnar Ketilsson tapaði. Lengi vel leit út fyrir að GA-strákarnir næðu hagstæðari úrslitum en jafnar viðureignir féllu þeim ekki í vil.

Sveitin leikur því um bronsið gegn sveit Golfklúbbsins Keilis og hefst viðureignin kl. 10 í fyrramálið.