Fara í efni
Íþróttir

Stórt tap KA/Þórs í seinni Evrópuleiknum

Brasilíska stúlkan Nathalía Soares Baliana þiggur góð ráð hjá Rut Arnfjörð Jónsdóttur, besta leikmanni KA/Þórs og öðrum aðstoðarþjálfara liðsins. Nathalía var markahæst í kvöld en Rut er meidd og lék því ekki með. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór tapaði í kvöld með 11 marka mun, 34:23, fyrir Gjorce Petrov frá Norður-Makedóníu í 2. umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta í KA-heimilinu. Þetta var seinni viðureign liðanna. Þau gerðu jafntefli, 20:20, á sama stað í gærkvöldi en spennan var engin í kvöld. 

Stelpurnar í KA/Þór byrjuðu ögn betur og komust í 3:1 en síðan tóku gestirnir völdin og stungu af. Staðan í hálfleik var 16:8.

Tveir leikmenn KA/Þórs meiddust í gær, þær Anna Þyrí Halldórsdóttir og Hrafnildur Irma Jónsdóttir, og voru fjarri góðu gamni. Þá er langbesti maður liðsins, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, meidd og var hvorki með í dag né gær. 

KA/Þór er þar með úr leik í Evrópukeppninni og helsta verkefni vetrarins því að gera sem best á Íslandsmótinu. Þar gæti róðurinn orðið þungur fyrir hið unga lið ef lykilmenn verða mikið frá vegna meiðsla.

Mörk KA/Þórs í kvöld: Nathalía Soares Baliana 7, Hildur Lilja Jónsdóttir 6, Aþena Sif Einvarðsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Kristín A. Jóhannsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2 (bæði úr víti) og Júlía Sóley Björnsdóttir 1.

Matea Lonac varði 17 skot (þar af 1 víti).