Spennan eykst á Akureyrarmótinu

Keppni á öðrum degi af fjórum á Akureyrarmótinu í golfi er lokið og þó að línur séu farnar að skýrast í nokkrum flokkum þá eru miklar sviptingar í öðrum og ljóst að spennan á bara eftir að aukast.
Lilja Maren Jónsdóttir og Valur Snær Guðmundsson leiða ennþá í meistaraflokkum kvenna og karla. Lilja Maren er á 17 höggum yfir pari samanlagt en hefur núna einungis tveggja högga forskot á Köru Líf Antonsdóttur. Valur Snær er á þremur höggum yfir pari en Víðir Steinar Tómasson, sem lék best í karlaflokknum í dag, er fimm höggum á eftir. Og stutt í næstu menn, þannig að allt getur ennþá gerst í meistaraflokkunum.
Lilja Maren Jónsdóttir hefur enn forystu í meistaraflokki kvenna en nú munar einungis tveimur höggum á henni og Köru Líf Antonsdóttur. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- Guðríður Sveinsdóttir jók forskotið í 1. flokki kvenna, er á 16 höggum yfir pari og núna með átta högga forskot.
- Sömuleiðis er forskotið hjá Guðrúnu Karítas Finnsdóttur í 2. flokki kvenna orðið þægilegt, núna munar 10 höggum á henni og Birnu Baldursdóttur. Íþróttakempan og baráttujaxlinn Birna hefur þó áreiðanlega ekki sagt sitt síðasta orð! Þær stöllur eru bara tvær í þessum flokki og leika því saman alla keppnisdagana.
- Keppni hófst í dag í 3. flokki kvenna en þær leika bara þrjá hringi. Bryndís Björnsdóttir lék á 100 höggum og er með 5 högga forskot.
- Sömuleiðis hóf 4. flokkur kvenna leik í dag og þar kom Sólveig María Árnadóttir fyrst í mark, á 99 höggum, og hefur sex högga forskot á næstu konur.
Kara Líf Antonsdóttir var fjórum höggum á eftir Lilju Maren Jónsdóttur eftir fyrsta dag í meistaraflokki kvenna en nú munar tveimur höggum. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- Í 1. flokki karla stefnir í hörkukeppni; Starkaður Sigurðarson er á 18 höggum yfir pari samanlagt en næstu menn koma þar á eftir í þéttum hóp og allt getur gerst.
- Ekki er spennan minni í 2. flokki karla en þar eru Ingi Torfi Sverrisson og Baldvin Orri Smárason efstir og jafnir á 28 höggum yfir pari. Fjölmennur hópur kemur þar í humátt á eftir og ljóst að baráttan verður geysihörð allt til loka.
- Svipaða sögu má segja af 3. flokki karla en þar eru Stefán Sigurður Hallgrímsson og Kári Gíslason efstir og jafnir á 38 höggum yfir pari, örskammt á undan næstu keppendum.
- Keppni í 4. og 5. flokki karla hófst í dag og leika þessir flokkar þrjá hringi. Í 4. flokki lék Stefán Bjarni Gunnlaugsson best, kom inn á 92 höggum og er tveimur höggum á undan næsta manni. Í 5. flokki sló Friðrik Tryggvi Friðriksson 109 högg, fjórum færra en næsti keppandi.
- Öldungaflokkarnir leika sömuleiðis 3 hringi og þar lýkur keppni á morgun, föstudag. Eftir tvo keppnisdaga í öldungaflokki kvenna 50+ er Guðrún Sigríður Steinsdóttir samtals á 35 höggum yfir pari og hefur 10 högga forskot fyrir lokadaginn.
Víðir Steinar Tómasson lék best allra karla í meistaraflokki í dag, á einu höggi yfir pari, og er kominn í annað sætið. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- Anton Ingi Þorsteinsson er enn með forystuna í öldungaflokki karla 50+. Eftir að hafa leikið á einu höggi undir pari í gær lék hann á einu höggi yfir pari í dag og er því á pari samanlagt. Fyrir lokadaginn er Anton með nokkuð þægilegt 8 högga forskot.
- Engir keppendur eru í öldungaflokki kvenna 70+ að þessu sinni en karlamegin í 70+ er Birgir Ingvason búinn að leika langbest allra, samanlagt á 10 höggum yfir pari. Fimmtán högg eru niður í annað sætið, þannig að Birgir er í mjög vænlegri stöðu fyrir lokadaginn á morgun.
- Þá hófst keppni í flokki 14 ára og yngri í dag. Þar lék Kristófer Áki Aðalsteinsson á 79 höggum og hefur þriggja högga forskot.
Sunnangolan sem var að flýta sér dálítið í gær var víðsfjarri í dag en þó gerði nokkrar regnskúrir seinnipart dags. Veðurspáin fyrir næstu daga er verulega góð og ástæða til að hvetja golfáhugafólk til að kíkja upp á Jaðarsvöll og fylgjast með okkar bestu kylfingum. Keppni á þriðja degi hefst snemma að morgni föstudags og síðustu keppendur ljúka væntanlega leik á níunda tímanum að kvöldi.
Stöðu allra keppenda í öllum flokkum má finna hér.