Fara í efni
Íþróttir

Sögulegur dagur hjá Iðunni og Ísfold

Iðunn Rán Gunnarsdóttir, til vinstri, og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ásamt reynsluboltanum, Örnu Sif…
Iðunn Rán Gunnarsdóttir, til vinstri, og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ásamt reynsluboltanum, Örnu Sif Ásgrímsdóttur, fyrirliða Þórs/KA, í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og Keflavík gerðu markalaust jafntefli í dag í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmóts kvenna. Þar með er ljóst að Keflvíkingar halda sæti sínu í deildinni, en lið Tindastóls frá Sauðárkróki, er fallið niður í Lengjudeildina eftir tap á heimavelli, 2:1,  fyrir Stjörnunni.

Lið Þórs/KA endaði í 6. sæti deildarinnar að þessu sinni. Dagurinn var sögulegur fyrir tvær ungar og mjög efnilegar stelpur í Þór/KA því þær voru í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í efstu deild. Iðunn Rán Gunnarsdóttir lék sem miðvörður, við hlið fyrirliðans þrautreyndar, Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir lék á miðjunni.

Iðunn er fædd 2005 og er nýorðin 16 ára en Ísfold Marý fædd 2004, nýorðin 17 ára.

Iðunn hafði komið við sögu í einum leik, kom af varamannabekknum gegn Þrótti í Reykjavík 23. ágúst en Ísfold Marý hafði komið 10 sinnum inná sem varamaður í deildinni í sumar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Smellið hér til að sjá lokastöðuna í deildinni.